Systurfélög Toyota umboðsins á Íslandi högnuðust samanlagt um 1.343 milljónir á síðasta ári, samanborið við 228 milljónir árið 2020. Sala Toyota á Íslandi jókst um þriðjung frá fyrra ári og nam 12,2 milljörðum en rekstrartekjur TK bíla hækkuðu um 10% og voru 14,6 milljarðar.
„Mikill vöxtur var í eftirspurn eftir nýjum bifreiðum á árinu 2021 og voru nýskráningar Toyota bifreiða samtals 2.013 (1.543 árið 2020) og nýskráningar Lexus bifreiða voru 51 (44 árið 2020). Sala það sem af er árinu 2022 er í samræmi við væntingar og gert er ráð fyrir góðu rekstrarári, en mikil eftirspurn hefur verið eftir bifreiðum félagsins,“ segir í skýrslu stjórnar.
Toyota á Íslandi mun greiða út 800 milljónir og TK bílar 150 milljónir vegna síðasta rekstrarárs. Félögin eru í eigu UK fjárfestinga sem eru aftur í jafnri eigu Úlfars Steindórssonar og Kristjáns Þorbergssonar.