Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Treble Technologies hefur hlotið viðurkenningu sem fremsta sprotafyrirtækið á Norðurlöndum í að stuðla að heilbrigðara og sjálfbærara byggðu umhverfi.
Félagið sigraði í flokknum Healthy and Sustainable Buildings á Nordic PropTech Awards 2025 sem fram fór í Kaupmannahöfn á dögunum.
Treble þróar hátæknilegan hljóðhermunarhugbúnað sem gerir hönnuðum, arkitektum og framleiðendum kleift að bæta hljóðvist í byggingum, vörum og farartækjum. Meðal viðskiptavina Treble eru nokkur af stærstu tæknifyrirtækjum heims.
„Að fá þessa viðurkenningu er gríðarlegur heiður og staðfestir mikilvægi starfs okkar. Góð hljóðvist og vönduð hljóðhönnun hafa jákvæð áhrif á heilsu, vellíðan, framleiðni og mannleg samskipti. Á hinn bóginn er hávaði og léleg hljóðvist eitt stærsta umhverfisvandamál samtímans,“ segir Finnur Pind, framkvæmdastjóri og stofnandi Treble Technologies.
Auk þess að hljóta Nordic PropTech Awards var Treble nýverið valið Besta sprotafyrirtækið 2025 á UTmessunni, stærstu upplýsingatækniráðstefnu Íslands, sem fór fram í Hörpu í febrúar.
Þá lauk félagið einnig við 11 milljóna evra, eða 1,7 milljarða króna, sem verður nýtt til að fjölga starfsfólki, efla rannsóknir og þróun, og auka útbreiðslu lausna sinna á alþjóðlegum markaði.