Yfir hundrað smáforrit hafa verið fjarlægð úr smáforritaverslunum í Kína, þar á meðal TripAdvisor. Flest smáforritanna sem fjarlægð voru eru kínversk og segja stjórnvöld þar í landi aðgerðina vera liður í að fjarlægja efni tengt klámi, vændi, fjárhættuspili og ofbeldi.
Samkvæmt frétt BBC er óljóst hvers vegna TripAdvisor fellur þar undir, en engar frekari skýringar hafa fengist. Athygli vekur að vefsíða TripAdvisor er enn aðgengileg í Kína.
TripAdvisor smáforritið gerir notendum meðal annars kleift að bera saman og skoða umsagnir um hótel, veitingastaði og vinsæla ferðamannastaði, svo fátt eitt sé nefnt.
Neterjur þjóðanna ekki nýjar af nálinni
Bandaríkin og Kína hafa um nokkurt skeið eldað grátt silfur saman, en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur reynt að banna kínverska smáforritið TikTok þar í landi, en sú viðleitni hans hefur ekki hlotið náð fyrir bandarískum dómstólum.
Kínverjar hafa löngum viðhaft strangar reglur um alvefinn, sem er verulega ritskoðaður þar í landi. Mörg stór bandarísk fyrirtæki eru þannig útilokuð af kínverska vefnum, til að mynda Google, Facebook og Twitter.