Tröllahótel hafa keypt hótelið Puffin Hótel Vík og hostelið Puffin Hostel Vík í Vík í Mýrdal. Nýju nöfn gististaðanna, sem eru bæði staðsett í miðri Vík, eru Vík-Inn og 1908 Hostel.

Gísli Eyland, framkvæmdastjóri Tröll ferðaþjónustu, segir í samtali við Viðskiptablaðið að kaupin hafi verið töluvert lengi í vinnslu og að það sé mjög ánægjulegt að þau hafi loks gengið í gegn.

„Þetta er líka mjög gott fyrir okkur almennt og bara alla starfsemina hérna á suðurströndinni. Við erum náttúrulega líka með mikla starfsemi í Vík nú þegar og þetta mun hjálpa okkur þegar kemur að ferðum og fleira.“

Puffin Hostel og Puffin Hotel Vik hafa nú fengið nöfnin 1908 Hostel og Vík-Inn.
© Samsett (SAMSETT)

Tröllin hóf göngu sína árið 2016 og til að byrja með bauð félagið upp á jöklaferðir á Suðurlandi. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um þá hóf fyrirtækið hótelrekstur í fyrra í kjölfar kaupa á gistihúsum í Hrífunesi og Drangshlíð.

Gísli segir að teymið sé mjög spennt að koma Tröllbragnum inn í hótelin og að fyrirtækið sé í miklum sóknarhug almennt. Aðspurður um framtíðina segir hann að nú sé verið að leggja áherslu á vöruþróun og að bæta nýjum vörum inn á markaðinn.