Eignarhaldsfélagið Tröllahótel festi kaup á eignum og jörð í Drangshlíð í Rangárþingi eystra í byrjun nóvember.
Kaupverð var 435 milljónir króna en innifalið í kaupunum var einbýlishús, fjögur gistihús og matstaður, samtals ríflega 1500 fermetrar að stærð, auk lóðarinnar sem eignirnar standa á.
Áður hafði Tröllahótel keypt gistihús í Hrífunesi í Skaftártungu, sem er milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs, en seljendur gistihúsanna voru annars vegar Borgar ehf., sem rak Glacial View Guesthouse, og Look North ehf., sem rak Hrífunes Guesthouse.
Viðskiptablaðið greindi frá þeim kaupum í júlí í fyrra en samanlagt kaupverð nam rúmum hálfum milljarði króna.
Afhending á eignunum fór fram í október og nóvember og í desember voru Hótel Drangshlíð ehf. og Hótel Hrífunes ehf. skráð. Ingólfur Ragnar Axelsson, framkvæmdastjóri og eigandi Tröll ferðaþjónustu, er skráður eigandi beggja félaga.
Til viðbótar við hótel í Hrífunesi og Drangshlíð er Tröll í samstarfi með gistihúsarekstur á Ísafirði, í Stykkishólmi og nærri Borgarnesi við Hvítá.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í gærmorgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.