Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, tilkynnti á blaðamannafundi rétt í þessu að hann muni segja af sér eftir nærri áratug við stjórnvölinn. Hann mun jafnframt segja af sér sem formaður Frjálslynda flokksins en hann mun sitja áfram sem forsætisráðherra þangað til að búið er að velja nýjan formann.

Afsögn Trudeau fylgir í kjölfar mikils þrýstings frá flokksfélögum hans að undanförnu. Kallað hafði verið eftir því að hann myndi segja af sér fyrir komandi þingkosningar í ár.

Trudeau sagði að endurnýja þyrfti þingið eftir mánaðalanga stjórnarkrísu í landinu. Hann tilkynnti um að þinghaldi í Kanada verði frestað til 24. mars næstkomandi.

Í umfjöllun The Wall Street Journal segir að Trudeau muni láta af embætti forsætisráðherra sem einn óvinsælasti stjórnmálamaður landsins og skilja flokkinn sinn eftir í veikri stöðu. Jafnframt sé hann að segja af sér á sama tíma og Kanada horfi fram á mikla efnahagslega óvissu í tengslum við tollaáform Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna.