Framleiðslufyrirtækið Truenorth Nordic hagnaðist um 220 milljónir króna árið 2023 samanborið við 308 milljónir árið áður. Félagið hyggst greiða út 100 milljónir króna í arð til hluthafa í ár, samkvæmt nýbirtum ársreikningi.

Rekstrartekjur Truenorth námu 11,5 milljörðum króna í fyrra samanborið við 10,3 milljarða árið 2022.

Veltan á árunum 2023 og 2022 var margfalt meiri en á árunum þar á undan sem má sennilega rekja að stórum hluta til aðkomu félagsins að fjórðu þáttaröð True Detective sem tekin var upp hér á landi. Um er að ræða stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar en dótturfélag Truenorth lauk vinnu við verkefnið á síðasta ári.

„Framleiðsla verkefnisins tókst mjög vel og er mikil ánægja hjá verkkaupa með útkomuna og hafa aðstandendur og aðalleikarar þáttaraðarinnar notað hvert tækifæri sem gefist hefur til að hrósa Íslandi, Íslendingum og þeim sem að verkefninu komu hér á landi,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi Truenorth Nordic.

„Með þessu stóra verkefni er búið að sýna fram á að hér á landi er bæði kunnátta og þekking hjá innlendu starfsfólki og hér er einnig aðstaða og tækjabúnaður til að leysa risa verkefni.“

Fram kemur að helstu áskoranir í rekstri félagsins séu þær tafir sem hafa verið á þróun erlendra verkefna vegna verkfalla hjá handritshöfundum og leikstjórum í Bandaríkjunum.

Þá sé töluverð áhætta falin í því að endurgreiðsluhlutfall á kostnaði við kvikmyndagerð sé ekki ákveðið til langs tíma þannig óvissa ríki um hvert hlutfallið verður og erfitt sé að leggja drög að verkefnum langt fram í tímann.

„Endurgreiðsla framleiðslukostnaðar vegna kvikmyndagerðar er grundvöllur þess að hér á landi þrífist blómlegur kvikmyndaiðnaður og er lykill að uppbyggingu iðnaðarins hér á landi.“

Eignir Truenorth Nordic samstæðunnar námu 1,5 milljörðum króna í árslok 2023 og eigið fé var um 566 milljónir króna.

Félagið er í 67,2% eigu LBD ehf., félags Leifs B. Dagfinnssonar, 16,8% í eigu Kopar ehf., félags Guðjóns Ómars Davíðssonar, og 16,0% í eigu Tonitrus ehf., félags Þórs Kjartanssonar.