Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur misst þolinmæðina vegna tafa á afhendingu nýrrar forsetaflugvélar frá Boeing.

Hann hefur nú látið L3Harris, varnartæknifyrirtæki með aðsetur í Melbourne, Flórída, útbúa flugvél til tímabundinnar notkunar fyrir lok ársins, samkvæmt heimildum Wall Street Journal.

Um er að ræða fyrrum einkaþotu ríkisstjórnar Katar, af gerðinni Boeing 747, sem þá yrði bráðabirgðaforsetaflugvél. Fyrirtækið mun útbúa vélina með sérhæfðum búnaði sem nauðsynlegur er fyrir forsetaflug.

Boeing heldur þó áfram þróun tveggja nýrra flugvéla sem ætlaðar eru til að leysa Air Force One af hólmi. Verkefnið hefur hins vegar dregist svo mikið að óvíst er hvort Trump fái að fljúga með þeim á meðan hann er enn í embætti.

Samkvæmt heimildum WSJ vill Trump að vélin verði tilbúin til notkunar strax í haust.