Líkurnar á að Donald Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna virðast aukast á hverjum degi samkvæmt könnunum en fjárfestar í Evrópu eru byrjaðir að taka stöður samhliða því.
Samkvæmt Financial Times tók Barclays banki saman 28 evrópsk fyrirtæki sem eru líklegust til að verða fyrir neikvæðum áhrifum af tollum Trump.
Meðaltalslækkun hlutabréfaverðs þessara 28 fyrirtækja frá lokum september er um 7%.
Um er að ræða félög eins og Diageo, LVMH og Volkswagen. Hlutabréfaverð fyrrnefndra félaga hefur lækkað um 2% á árinu á meðan vegið meðaltal allra skráðra félaga í Evrópu er upp um 8%.
Trump hefur lofað því að hefja viðskiptastríð verði hann forseti að nýju en samkvæmt Financial Times mun það setja meiri þrýsting á fjölmörg evrópsk fyrirtæki sem eru nú þegar að berjast við dræma eftirspurn og hægari efnahagsumsvif víða.
„Trump-áhrifin á þessi félög eru margfölduð,“ segir Luca Paolini, yfirmaður greiningardeildar Pictet Asset Management, en hann vísar þar til minni eftirspurnar í Kína og efnahagssamdráttar í Evrópu.
Trump hefur lofað því að setja um 20% toll á innfluttar vörur frá Evrópu og um 60% toll á vörur frá Kína. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varaði nýlega við því að verði hugmyndir hans að veruleika muni það hafa gríðarleg áhrif á hagvöxt á heimsvísu.