Í stefnuyfirlýsingu Donalds Trumps, nýs Bandaríkjaforseta, kemur fram að hann hyggist kynna fordæmalausan fjölda forsetatilskipana til að afturkalla ýmsar reglugerðir.

Hann hefur m.a. boðað einföldun leyfisveitinga og endurskoðun reglugerða í tengslum við framleiðslu og nýtingu á orku, þar á meðal vinnslu og nýtingu jarðefna. Hann hyggst lýsa yfir orkukreppu og leggja áherslu á uppbyggingu innviða til orkuframleiðslu.

Þá hefur Trump lofað að stöðva innleiðingu „íþyngjandi og róttækra reglugerða“, eins og það er orðað í stefnuyfirlýsingunni, sem Joe Biden, fráfarandi Bandaríkjaforseti kynnti en hafa ekki enn tekið gildi.

Í kosningabaráttunni talaði Trump einnig fyrir því að draga úr regluverki í bankageiranum til að drífa áfram hagvöxt.

Trump betri en Harris fyrir bandarískt efnahagslíf

Fjárfestar virðast heldur jákvæðir gagnvart þessari stefnu Trumps ef litið er til þróunar S&P 500-vísitölunnar, sem hefur hækkað um 6% frá kosningunum 5. nóvember þegar þessi grein er skrifuð.

Hafa greinendur spáð 10% hækkun vísitölunnar á þessu ári, sem er þó lægra en sögulegt meðaltal upp á 11%.

Meðal þess sem fjárfestar horfa til er minna regluverk í fjármála- og orkugeiranum.

„Það er ýmislegt í efnahagsstefnu Trumps sem yrði jákvætt fyrir bandarískt efnahagslíf. Hans stefna um regluverk í fjármálakerfinu er jákvæð og góð fyrir hagvöxt. Út frá hreinu efnahagssjónarmiði tel ég að stefna hans gæti verið betri fyrir bandarískt efnahagslíf en sú sem Kamala Harris myndi hugsanlega fylgja,“ bætir Jón við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.