Kínverskir netsalar hafa hætt sölu á stuttermabolum sem sýndu mynd af Donald Trump með krepptan hnefa rétt eftir að hafa orðið fyrir skoti. Bolirnir fóru í sölu örfáum klukkutímum eftir banatilræðið á verslunarsíðum eins og Taobao og JD.com.

Að sögn BBC er óljóst hvers vegna bolirnir voru teknir niður en internetið í Kína er mjög ritskoðað og allt sem er álitið viðkvæmt er reglulega fjarlægt.

Kínverskir netsalar hafa hætt sölu á stuttermabolum sem sýndu mynd af Donald Trump með krepptan hnefa rétt eftir að hafa orðið fyrir skoti. Bolirnir fóru í sölu örfáum klukkutímum eftir banatilræðið á verslunarsíðum eins og Taobao og JD.com.

Að sögn BBC er óljóst hvers vegna bolirnir voru teknir niður en internetið í Kína er mjög ritskoðað og allt sem er álitið viðkvæmt er reglulega fjarlægt.

Bolirnir voru til sölu á Taobao fyrir 39 júan, eða tæpar 730 krónur, og bárust um 2.000 pantanir aðeins þremur klukkustundum eftir skotárásina. Flestar pantanir voru frá Kína og Bandaríkjunum.

Banatilræðið á laugardaginn vakti víðtæka umræðu á netinu, þar með talið í Kína, og voru myllumerki merkt Trump mjög ofarlega á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo. Trump hefur vakið mikla athygli í Kína í mörg ár, bæði af jákvæðum og neikvæðum ástæðum.

Viðskiptastríð Trump gegn Kína vakti á sínum tíma mikla reiði meðal stjórnvalda og almennings í Kína. Hins vegar naut hann mikils stuðnings meðal kínverskra innflytjenda í Bandaríkjunum og hafa til að mynda öll tíst hans verið þýdd yfir á kínversku í gegnum X-reikninginn @Trump_Chinese.

Trump hefur líka verið vinsæll brandari í Kína en margir leika sér með kínversku þýðinguna á nafninu hans, Chuan, og kalla hann Chuan Jianguo, sem þýðir Trump þjóðarsmiður.