Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að fresta 25% viðbótartollum á innflutt stál og ál frá Kanada. Verður nú miðað við upprunalega áætlun sem kveður á um 25% toll á ál og stál, sem ná m.a. til Kanada, og taka þeir gildi á morgun.
Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að Doug Ford, fylkisstjóri Ontario, samþykkti að fresta því að leggja 25% toll á raforku til ákveðinna ríkja Bandaríkjanna en hann hafði boðað slíka tolla sem svar við upprunalegu áætlun Trumps. Trump svaraði því með hótunum um hefndartolla.
Samkvæmt BBC eru viðræður milli ríkisstjórnar Trumps og fylkisstjórnar Ontario yfirstandandi og hefur Howard Lutnick viðskiptaráðherra Bandaríkjanna meðal annars boðið Doug Ford til Washington. Fundur þeirra á milli fer fram á fimmtudag og verður fjármálaráðherra Kanada, Dominic LeBlanc, meðal viðstaddra.
Skammur tími er til stefnu en frestur er til 2. apríl, þegar hefndartollar Trumps eiga að taka gildi. Ford hafði áður sagt að hvorki hann né fylkisstjórnin myndu hörfa og til skoðunar væri að stöðva alfarið raforkuútflutningi ef til allsherjarviðskiptastríðs kæmi.
Á blaðamannafundi í dag sagðist Ford ekki ætla að lúffa fyrir bandarískum stjórnvöldum en að niðurstaða þurfi að liggja fyrir áður en fresturinn rennur út.