Rúmur mánuður er í að Donald Trump taki við sem Bandaríkjaforseti, í annað sinn, en hann hefur ekki sparað yfirlýsingarnar í efnahagsmálum undanfarnar vikur. Trump hefur boðað 20% toll á allan innflutning til Bandaríkjana og viðbótartolla á varning frá löndum á borð við Kanada, Mexíkó og Kína.
Fjöldi bandarískra fyrirtækja hefur lýst yfir áhyggjum vegna málsins og er óttast að viðskiptastríð gæti brotist út. Samkvæmt Wall Street Journal hafa stjórnendur leitað til aðstoðarmanna úr innsta hring Trumps en fengið þau svör að verðandi forsetinn neiti að falla frá eða draga úr áformum sínum.
Ákveðin fyrirtæki, sem og einstaklingar úr röðum Repúblikanaflokksins, binda aftur á móti vonir við að aðgerðirnar verði ekki að veruleika heldur sé Trump einungis að hóta aðgerðum til þess að ná sínu fram.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.