Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur nú hótað að setja 50% toll á allar vörur sem koma til Bandaríkjanna frá Evrópusambandinu. Forsetinn greindi frá þessu á samfélagsmiðlinum Truth Social í dag og segir að tollarnir taki gildi 1. júní nk.
Tilkynningin markar stigmögnun í viðskiptastríði Trumps við ESB en hann lagði upphaflega 20% toll á flestar vörur frá ESB áður en hann lækkaði þær aftur niður í 10% til 8. júlí.
Forsetinn tilkynnti jafnframt í dag að hann myndi leggja minnst 25% toll á iPhone-síma sem ekki eru framleiddir í Bandaríkjunum.
Trump sagði í dag að það væri mjög erfitt að eiga við ESB og að viðræður Bandaríkjamanna við sambandið hefðu engu skilað. „Þess vegna mæli ég með beinum 50% tollum á Evrópusambandið frá og með 1. júní 2025.“