Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað Apple 25% toll á alla iPhone-síma sem framleiddir eru utan Bandaríkjanna. Þetta kemur fram á vef WSJ en Trump hefur verið gagnrýninn á Apple fyrir framleiðsluáform fyrirtækisins.
Trump greindi frá þessu á samfélagsmiðlinum Truth Social en þar beindi hann spjótum sínum að forstjóra Apple, Tim Cook.
„Ég hef fyrir löngu síðan sagt Tim Cook frá Apple frá því að ég vilji að iPhone-símar þeirra, sem seldir eru í Bandaríkjunum, verði framleiddir og settir saman í Bandaríkjunum, ekki á Indlandi eða annars staðar. Ef svo verður ekki mun Apple þurfa að greiða að minnsta kosti 25% toll til Bandaríkjanna.“
Samkvæmt starfsmanni Hvíta hússins fundaði Tim Cook með forsetanum í vikunni en forsetinn hefur nýlega gagnrýnt áform Apple um að flytja framleiðslu fyrirtækisins til Indlands til að komast hjá tollum sem ríkisstjórn Trump hefur sett á Kína.