Donald Trump hefur hótað að leggja 30-35% toll á Japan ef samningar nást ekki milli ríkjanna tveggja í næstu viku. Á vef BBC segir að fresturinn til að semja renni út þann 9. júlí nk.

Trump hafði þegar lagt 24% toll á Japan á hinum svokallaða frelsisdegi 2. apríl sl. áður en hann var síðan lækkaður niður í 10% í 90 daga til að veita svigrúm til samninga.

Japönsk stjórnvöld hafa ekki viljað tjá sig um hótun Trumps sem sagði nýlega um borð í forsetaflugvélinni Air Force One að hann efist um að samkomulag náist í tæka tíð.

Flest viðskiptalönd sem Bandaríkin flytja inn vörur frá standa nú frammi fyrir 10% innflutningstolli. Allir japanskir bílar og varahlutir fá á sig 25% toll en stál og ál er háð 50% innflutningstolli.

Yoshimasa Hayashi, aðalráðherra japönsku ríkisstjórnarinnar, sagði að hann myndi ekki veita neinar tilslakanir sem gætu skaðað bændur landsins til að ná samkomulagi við bandarísk stjórnvöld.

Athugasemd hans kom eftir að Trump hafði gagnrýnt lönd fyrir viðskiptastefnu þeirra gagnvart Bandaríkjunum og minntist hann þá sérstaklega á innflutning japanskra hrísgrjóna.