Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað því að setja á refsitolla á viðskiptalönd Bandaríkjanna sem eru með virðisaukaskattskerfi.

„Við munum líta á lönd sem nota virðisaukaskattskerfi, sem eru mun meira íþyngjandi en tollar, líkt og þau lönd sem eru með tolla gegn okkur,“ sagði Trump á samfélagsmiðlinum Truth Social í gærkvöldi.

Hann lýsti þar yfir að hann hyggist beita refsitollum gegn öllum þeim löndum sem leggja álögur á Bandaríkin. Refsitollarnir yrðu í samræmi við þær álögur sem erlend ríki leggja á, „ekkert meira, ekkert minna!“

Danski viðskiptamiðillinn Børsen segir að þessi rök Trump að virðisaukaskattur réttlæti tolla opni á nýtt tollastríð milli Evrópuríkja og Bandaríkjanna.

Almennur virðisaukaskattur á Íslandi er 24% en neðra þrep hans er 11%. Í umfjöllun Børsen segir að 25% virðisaukaskattshlutfallið í Danmörku sé með því hærra í Evrópu. Lægsta almenna hlutfallið innan Evrópusambandsins sé í Lúxemborg eða 17%.

Dansk Erhverv, viðskiptaráð Danmerkur, áréttar að enn sem komið er sé ekki víst að Trump fylgi þessari stefnu eftir hvað virðisaukaskattinn varðar og líti eigi enn á þetta sem hótun. Engu að síður ættu dönsk fyrirtæki að taka þessu alvarlega enda gæti slík stefna haft veruleg áhrif á alþjóðleg viðskipi.

Trump sagði í gær að ráðgjafar hans séu að byrja að reikna tollahlutfall fyrir lönd víða um heim. Howard Lutnick, sem Trump hefur tilnefnt sem viðskiptaráðherra, sagði að tölurnar verði tilbúnar 1. apríl næstkomandi og meta þurfi hlutfall hjá hverri þjóð fyrir sig.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Dansk Erhverv segir að ef taka ætti eitthvað jákvætt út úr fréttunum þá væri það að nálgun Bandaríkjanna feli í sér að það gefist tími til fyrir milliríkjasamskipti áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir.

Enska Ráðgjafarfyrirtækið Capital Economics segir að breska hagkerfið eigi í hættu á 24 milljarða punda höggi vegna refsitolla Bandaríkjanna, að því er kemur fram í frétt The Telegraph.

Ef virðisaukaskattar og tollar mynda saman grunn að refsitollum þá gætu fyrirséðir tollar á Bretland verið talsvert hærri en þeir 10% viðbótartollar sem Bandaríkin lagði á innfluttar vörur frá Kína fyrr í mánuðinum. Capital Economics áætlar að refsitollar á Bretland gætu orðið 24% á breskar vörur og 25% á aðildarríki Evrópusambandsins.