Eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kynnti nýja tollastefnu sem felur í sér víðtækar hækkanir á innflutningstollum ríkir nú mikil óvissa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
Greiningarbréf Unhedged frá Financial Times lýsir stöðunni sem fordæmalausri. Bandaríkin hafi tekið árásargjarna afstöðu í garð helstu viðskiptalanda sinna og nú bíði allir, jafnt stjórnvöld sem fjárfestar, eftir að sjá hvort þessi stefna sé eitthvað sem forsetinn ætlar sér að halda í eða ekki.
Markaðsaðilar höfðu átt von á að meðalinnflutningstollar Bandaríkjanna myndu hækka í kringum 10–15%, en það sem kynnt var í gær fer mun lengra.
Almennt verða lagðir 10% tollar á nánast allar innfluttar vörur, en ákveðin ríki, einkum í Asíu, sæta enn hærri gjöldum.
Neil Shearing hjá Capital Economics áætlar að meðalinnflutningstollur verði um 19%, en samkvæmt útreikningum Omairs Sharif hjá Inflation Insights gæti talan farið upp í 25–30%.
Óvenjulegt er að jafn stór og afdrifarík ákvörðun skilji eftir sig svo mikla óvissu um grunngögnin sjálf.
En það endurspeglar, að mati Unhedged, þann einkennandi stíl sem hefur ríkt í Hvíta húsinu á valdatíma Trump: yfirlýsingar eru háværar en framkvæmdin loðin.
Asía undir þrýstingi
Þyngsta höggið lendir á Kína. Landið verður fyrir nýjum 34% tollum, sem leggjast ofan á fyrri 20% tolla sem forsetinn hafði sett.
Þannig nemur heildartollur á kínverskar vörur nú samtals 54%, áður en tollar frá forsetatíð Joe Biden og fyrstu forsetatíð Trump eru teknir inn í myndina.
Aðrar þjóðir í Asíu, þar á meðal Víetnam, Kambódía og Indónesía, fá einnig að kenna á auknum viðskiptahömlum, enda virðist stefnan ekki aðeins miðuð að því að koma í veg fyrir beinan innflutning frá Kína, heldur einnig að loka smugu í alþjóðlegum virðiskeðjum sem Kína gæti nýtt sér óbeint.

Furðuleg viðbrögð fjármálaráðherra
Ljósi punkturinn í yfirlýsingunni, að mati FT, er sá að Kanada og Mexíkó eru undanþegin nýjum tollum, að minnsta kosti í bili.
Þetta þýðir að vörur sem falla undir USMCA-samninginn (sem Trump sjálfur samdi við nágrannaríkin) haldast að mestu leyti ósnertar. Það gæti þýtt að bílaframleiðsla innan Norður-Ameríku njóti ákveðinnar samkeppnisstöðu gagnvart öðrum heimshlutum, þar sem innfluttir bílar sæta 25% tolli. Innfluttir varahlutir í bíla munu þó sæta tollum sem flækir stöðuna.
Meiri óvissa ríki þó í greinum á borð við lyfjaiðnað, timburiðnað og málmaframleiðslu.
Þessar greinar voru undanskildar núverandi tollum en flestir telja að þar sé aðeins um að ræða frestun, ekki undanþágu.
Þá liggur ekki fyrir hversu mikið svigrúm er til samninga. Þegar fjármálaráðherrann Scott Bessent var spurður út í þetta í gær talaði hann eins og maður sem ekki hafði verið upplýstur um hvað næstu skref væru.
„Það fer eftir forsetanum hvað hann vill gera; mér sýnist viðhorfið vera að leyfa hlutunum að róast um stund,“ sagði Bessent við fjölmiðla í gær.
Fjárfestar flýja áhættu í óvissuástandi
Markaðir brugðust samstundis við. Framvirkir samningar með Nasdaq-100 sendu vísitöluna niður um 4% og S&P 500 féll um 3% í utanþingsviðskiptum.
Bitcoin, sem oft er lýst sem „vernd gegn hefðbundnum kerfum“, féll einnig á meðan gull, sem jafnan styrkist þegar ótti grípur markaði, hækkaði.
Ríkisskuldabréf styrktust er ávöxtunarkrafa þeirra féll, sem veikir Bandaríkjadal.
Slík viðbrögð eru dæmigerð þegar markaðir mæta óvissu: áhættufælni sigrar græðgi.
Einn helsti mælikvarði á áhættufælni fjárfesta, VIX-vísitalan, hefur hækkað um tæp 19% í dag.
Vísitalan, sem mælir vænt flökt S&P 500 samkvæmt verðlagningu á valréttum tengdum henni, stendur í 26,4 stigum um þessar mundir. Venjulega er talið að fjárfestar séu orðnir áhættufælnir þegar vísitalan er komin yfir 20 stig.
Sögulega séð er vísitalan þó fremur lág en hæsta gildi hennar var um 89 stig þegar efnahagshrunið skók heiminn árið 2008.
Hægari vöxtur - hærri verðbólga
Tollarnir, sem í reynd jafngilda stórfelldri skattlagningu, munu hafa neikvæð áhrif á hagvöxt.
Matt Gertken hjá BCA Research segir að áhrifin verði meiri en áður var talið, þar sem bandarísk neysla og neytendavitund hafi þegar verið á niðurleið.
„Þetta mun valda frekari samdrætti, færri nýjum störfum, tekjuskerðingu og minni neyslu. Líkurnar á samdrætti í efnahagslífinu hafa aukist,“ segir hann.
Þá telja hagfræðingar líklegt að verðbólga muni aukast til skamms tíma.
Samuel Tombs hjá Pantheon Macroeconomics telur að ef tollar á Kanada og Mexíkó færu einnig í 25%, myndi verðvísitalan (e. Personal Consumption Expenditures Price Index) hækka um allt að 2 prósentustig.
PCE-verðvísitalan mælir verðbólgu eða verðhjöðnun í útgjöldum heimila til fjölbreyttrar vöru- og þjónustuneyslu og tekur tillit til þess hvernig fólk breytir neysluvenjum sínum.
Hagfræðingurinn Adam Posen bendir á að þessi tollastefna sé mun víðtækari og afdráttarlausari en það sem sést hafi áður og það muni setja mark sitt á verðlag.
Hægari vöxtur og meiri verðbólga gera bandaríska seðlabankanum erfitt fyrir. Væntingar markaðsaðila um vaxtalækkanir hafa þó aukist en
Claudia Sahm hjá New Century Advisors segir að það vera mistök. „Eftir margra ára verðbólguþrýsting vill Seðlabankinn sýna festu. Hann mun hiksta við að lækka vexti.“
Strax í gærkvöldi byrjuðu fjárfestar að sækja í hefðbundnar varfærnar eignir. Japanska jenið styrktist um 1,4% gagnvart Bandaríkjadal og stóð í 147,1.
Gullverð náði sögulegu hámarki og fór í 3.167 dali á únsu.
Á sama tíma jukust kaup á ríkisskuldabréfum, sem leiddu til lækkunar á ávöxtunarkröfu þeirra.
Bandarísk 10 ára skuldabréf fóru úr 4,23% í 4,10% og japönsk skuldabréf af sömu lengd lækkuðu niður í 1,3%.
Verðtryggð ríkisskuldabréf (TIPS) sem vanalega hafa ekki notið mikillar hygli hjá fjárfestum eru nú orðin bréf sem fjárfestar vilja bæta við í eignasöfn sín.
„Yfirleitt kann ég illa við þau,“ segir Edward Al-Hussainy hjá Columbia Threadneedle.
„En þau bjóða upp á þá sérstöðu að markaðir lækka vexti þegar áhætta eykst og það gæti líka komið verðbólguskot. TIPS skila bestu ávöxtun þegar væntingar um verðbólgu aukast og raunvextir lækka. Við verðum kannski ekki í slíku umhverfi lengi en akkúrat núna virðist það vera staðan.“
Bandarísk 10 ára skuldabréf fóru úr 4,23% í 4,10% og japönsk skuldabréf af sömu lengd lækkuðu niður í 1,3%.
Bandaríkjadalurinn veiktist einnig og féll um 0,8% gagnvart helstu viðskiptamyntum samkvæmt vísitölu sem mælir gengi dals gagnvart körfu gjaldmiðla.
Unhedged lýkur greiningu sinni á þeim orðum að þótt Trump hafi áður snúið frá harðorðum yfirlýsingum með skömmum fyrirvara hafi yfirlýsingin nú verið af þeirri stærðargráðu að það sé erfitt að draga hana til baka.
Vegferðin sé hafin og jafnvel þótt nokkrar sveiflur verði í nálgun hans næstu mánuði sé erfitt að sjá hvernig Bandaríkin snúa nú við af þessari leið.