Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, sagði nýverið að stór­felldir tollar á inn­flutt lyf verði kynntir „mjög fljót­lega“.

Þetta kom fram á fjáröflunar­kvöld­verði fyrir þing­menn Repúblikana, þar sem Trump sagði að mark­miðið væri að færa lyfja­fram­leiðslu aftur til Bandaríkjanna og nýta stærð markaðarins til að knýja fram breytingar.

„Við ætlum að til­kynna stóra tolla á lyf,“ sagði Trump en Bloom­berg greinir frá „Þegar við gerum það munu þau koma hlaupandi aftur til Bandaríkjanna, því við erum stærsti markaðurinn.“

Flókið og viðkvæmt kerfi

Trump hefur ítrekað gagn­rýnt það hve háð Bandaríkin eru inn­flutningi á lyfjum og vill beita tollum til að hvetja til inn­lendrar fram­leiðslu.

Hann hefur þó enn ekki hrundið af stað lög­bundinni rannsókn sem þarf til að beita svo­nefndu 232. gr. við­skipta­laga, sem gerir for­seta kleift að inn­leiða slíka tolla á grund­velli þjóðaröryggis.

Í milli­tíðinni hefur lyfja­iðnaðurinn að mestu verið undan­skilinn ný­legum tollum Trumps, þar sem stjórn­völd óttast að tollar á lyf gætu valdið bæði hækkandi kostnaði og al­var­legum skorti.

Í frétt Reu­ters kemur fram að lyfja­iðnaðurinn byggi á mjög flóknum, alþjóð­legum birgða­keðjum.

Um 82% af virkum inni­halds­efnum (API) í lífs­nauð­syn­legum lyfjum, þar með talið astma- og sykursýkis­lyfjum, koma frá Kína og Ind­landi.

Aðeins 4% eru fram­leidd í Bandaríkjunum. Fyrir­tæki á borð við Pfizer, AstraZene­ca og GSK fram­leiða lyf í mörgum löndum og flytja þau oft á milli fyrir pökkun og dreifingu.

Ef tollar verða lagðir á inn­flutt lyf gætu þeir haft al­var­leg áhrif á að­gengi og verð. Fyrir­tæki sem fram­leiða dýr og sér­hæfð lyf gætu brugðist við með því að hækka verð, sem myndi lenda á herðum sjúkra­húsa, tryggingafélaga og að lokum sjúklinga sjálfra.

Á sama tíma gætu fram­leiðendur ódýrari lyfja, einkum sam­heita­lyfja, átt erfiðara með að bæta sér upp aukinn kostnað og gætu dregið úr fram­leiðslu, hætt út­flutningi til Bandaríkjanna – eða jafn­vel orðið gjaldþrota. Slík þróun gæti ógnað að­gengi sjúklinga að nauð­syn­legum lyfjum.

Það getur tekið allt að 10 ár að byggja og inn­rétta lyfja­verk­smiðju í Bandaríkjunum vegna strangra krafna frá FDA (Mat­væla- og lyfja­eftir­litinu).

Á þeim tíma þurfa allar aðstöður að standast viða­miklar skoðanir og prófanir áður en fram­leiðsla fær leyfi til dreifingar.