Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði nýverið að stórfelldir tollar á innflutt lyf verði kynntir „mjög fljótlega“.
Þetta kom fram á fjáröflunarkvöldverði fyrir þingmenn Repúblikana, þar sem Trump sagði að markmiðið væri að færa lyfjaframleiðslu aftur til Bandaríkjanna og nýta stærð markaðarins til að knýja fram breytingar.
„Við ætlum að tilkynna stóra tolla á lyf,“ sagði Trump en Bloomberg greinir frá „Þegar við gerum það munu þau koma hlaupandi aftur til Bandaríkjanna, því við erum stærsti markaðurinn.“
Flókið og viðkvæmt kerfi
Trump hefur ítrekað gagnrýnt það hve háð Bandaríkin eru innflutningi á lyfjum og vill beita tollum til að hvetja til innlendrar framleiðslu.
Hann hefur þó enn ekki hrundið af stað lögbundinni rannsókn sem þarf til að beita svonefndu 232. gr. viðskiptalaga, sem gerir forseta kleift að innleiða slíka tolla á grundvelli þjóðaröryggis.
Í millitíðinni hefur lyfjaiðnaðurinn að mestu verið undanskilinn nýlegum tollum Trumps, þar sem stjórnvöld óttast að tollar á lyf gætu valdið bæði hækkandi kostnaði og alvarlegum skorti.
Í frétt Reuters kemur fram að lyfjaiðnaðurinn byggi á mjög flóknum, alþjóðlegum birgðakeðjum.
Um 82% af virkum innihaldsefnum (API) í lífsnauðsynlegum lyfjum, þar með talið astma- og sykursýkislyfjum, koma frá Kína og Indlandi.
Aðeins 4% eru framleidd í Bandaríkjunum. Fyrirtæki á borð við Pfizer, AstraZeneca og GSK framleiða lyf í mörgum löndum og flytja þau oft á milli fyrir pökkun og dreifingu.
Ef tollar verða lagðir á innflutt lyf gætu þeir haft alvarleg áhrif á aðgengi og verð. Fyrirtæki sem framleiða dýr og sérhæfð lyf gætu brugðist við með því að hækka verð, sem myndi lenda á herðum sjúkrahúsa, tryggingafélaga og að lokum sjúklinga sjálfra.
Á sama tíma gætu framleiðendur ódýrari lyfja, einkum samheitalyfja, átt erfiðara með að bæta sér upp aukinn kostnað og gætu dregið úr framleiðslu, hætt útflutningi til Bandaríkjanna – eða jafnvel orðið gjaldþrota. Slík þróun gæti ógnað aðgengi sjúklinga að nauðsynlegum lyfjum.
Það getur tekið allt að 10 ár að byggja og innrétta lyfjaverksmiðju í Bandaríkjunum vegna strangra krafna frá FDA (Matvæla- og lyfjaeftirlitinu).
Á þeim tíma þurfa allar aðstöður að standast viðamiklar skoðanir og prófanir áður en framleiðsla fær leyfi til dreifingar.