Donald Trump Bandaríkjaforseti íhugar nú nýtt tveggja þrepa fyrirkomulag á tollum sem gæti haft víðtæk áhrif á alþjóðaviðskipti.

Samkvæmt heimildum Financial Times vinnur stjórn hans að áætlun þar sem óvenjuleg lagaleg úrræði verða nýtt til að beita bráðabirgðatollum á meðan rannsóknir á viðskiptaháttum helstu viðskiptaþjóða eru í gangi.

Samkvæmt heimildum munu nýju tollaáformin verða kynnt 2. apríl, sem Trump hefur kallað „frelsisdag“, og hafa lönd víðs vegar um heim þegar hafið kapphlaup um að fá undanþágur.

Í ræðu á mánudag sagðist Trump ætla að leggja á „umtalsverða“ tolla á helstu viðskiptaþjóðir Bandaríkjanna en gaf jafnframt í skyn að sumar þjóðir gætu fengið undanþágur.

„Þau hafa rukkað okkur svo mikið að mér finnst næstum vandræðalegt að rukka þá jafnmikið til baka, en þetta verða háir tollar,“ sagði hann.

Óvissa um framkvæmd og tilgang

Tollar Trump-stjórnarinnar hafa verið umdeildir, bæði innan hennar sjálfrar og á alþjóðavísu.

Meðal valkosta sem verið er að ræða er að beita ákvæði 301 í bandarískum viðskiptalögum til að hefja formlegar rannsóknir á viðskiptaaðferðum annarra ríkja. Á meðan slík rannsókn færi fram yrðu tímabundnir tollar settir á með neyðarráðstöfunum.

Til þess gæti Trump gripið til lítt þekktra lagalegra úrræða eins og alþjóðlegra neyðarlaga eða ákvæðis 338 í tollalögum frá 1930, sem heimilar tollahækkanir um allt að 50 prósent.

Einnig hefur verið rætt um að endurvekja öryggisrannsókn frá hans fyrra kjörtímabili, sem gæti leitt til tafarlausra tolla á innflutt ökutæki. Að auki hefur ákvæði 122 í viðskiptalögum frá 1974 verið í skoðun, en það heimilar 15 prósenta tolla í allt að 150 daga.

Meðan Trump hefur haldið því fram að tollarnir séu nauðsynlegir til að vega upp á móti ósanngjörnum viðskiptaháttum annarra ríkja telja margir innan stjórnar hans að helsti tilgangurinn sé að afla tekna fyrir fyrirhugaðar skattalækkanir. Þetta hefur leitt til innri togstreitu milli helstu embættismanna hans.

Howard Lutnick viðskiptaráðherra Bandaríkjanna hefur tekið harða afstöðu gagnvart viðskiptaafgangi annarra ríkja og krafist samninga sem bæti stöðu Bandaríkjanna.

Á móti hefur Jamieson Greer, embættismaður hjá skrifstofu bandaríska viðskiptaráðgjafans, lagt áherslu á að byggja tollastefnuna á traustum lagalegum grunni með formlegum rannsóknum.

Alþjóðleg viðbrögð og mögulegir samningar

Nýja tollastefnan hefur þegar vakið viðbrögð víðs vegar um heim og hafa stjórnvöld í mörgum löndum hafið áhlaup á Washington í von um að fá undanþágur.

Bresk stjórnvöld eru sögð íhuga að draga úr sköttum á bandarísk tæknifyrirtæki í tilraun til að fá hagstæðari meðferð frá Bandaríkjunum.

Þá mun Maroš Šefčovič, viðskiptastjóri Evrópusambandsins, funda með Lutnick og Greer á þriðjudag til að ræða viðbrögð ESB við áformunum.

Þó að óvissa ríki enn um nákvæma framkvæmd tollastefnunnar virðist ljóst að Trump er staðráðinn í að taka harða afstöðu í viðskiptamálum, rétt eins og á fyrsta kjörtímabili sínu, þar sem hann beitti meðal annars víðtækum tollum á stál og ál frá helstu bandalagsþjóðum Bandaríkjanna.

Það á eftir að koma í ljós hvort þessi stefna muni leiða til viðskiptastríðs eða nýrra samninga við helstu viðskiptaþjóðir.