Donald Trump forseti Bandaríkjanna herðir nú tóninn gegn Indlandi á örfáum dögum áður en 25% innflutningstollar á indverskar vörur taka gildi.
Í færslu á Truth Social í gær lýsti Trump Indlandi og Rússlandi sem „dauðum hagkerfum“ og hélt því fram að Bandaríkin „versli mjög lítið við Indland“.
Hann bætti við að tollar Indlands væru meðal þeirra hæstu í heiminum.
Samkvæmt Financial Times eru yfirlýsingar sagðar auka spennu milli tveggja þjóða sem hafa byggt upp nánara varnarsamstarf á undanförnum árum, einkum til að vega gegn áhrifum Kína í nágrenni Indlands.
Trump hafði áður hótað svokölluðum „refsitollum“ á Indland í apríl og virðast nýju tollarnir, sem taka gildi 1. ágúst, vera hluti af þeirri stefnu.
Hins vegar hafa indversk stjórnvöld ekki fengið formlega tilkynningu frá Washington um ákvörðunina og forsetinn gaf í skyn í viðtali í gær að enn stæði yfir viðræður.
„Við sjáum hvað setur,“ sagði hann.+Trump hefur áður nýtt þessa taktík, hótað um háa tolla og svo sett þrýsting á samningaviðræður.
Indland stendur nú eitt eftir en Evrópusambandið, Japan og Suður-Kórea hafa gefið eftir, fallist á kröfur Bandaríkjanna og undirritað nýja samninga.
Viðkvæm markaðssvæði
Samkvæmt heimildum FT hefur Indland staðið fast á því að verja viðkvæma markaði sína fyrir matvæli og mjólkurvörur fyrir samkeppni frá Bandaríkjunum.
Hundruð milljóna Indverja reiða sig á þessa geira í atvinnuskyni og stjórnvöld í Nýju Delí segja að þau muni „gera allt sem þarf til að verja þjóðarhagsmuni“.
Samkvæmt greiningu frá Axis Bank í Mumbai gætu fyrirhugaðir tollar haft allt að 10 milljarða Bandaríkjadala áhrif á útflutning Indlands.
Þrátt fyrir að hagkerfi landsins sé að mestu leyti drifið áfram af innanlandsneyslu telja greiningaraðilar eins og Kunal Kundu hjá Société Générale að nýju tollarnir gætu „dregið úr trausti“ og sett útflutning í erfiðari samkeppnisstöðu.
Það er einnig ekki rétt að „Bandaríkin eigi afar lítil viðskipti við Indland“ líkt og Trump heldur fram en viðskipti ríkjanna námu rúmlega 129 milljörðum dala árið 2024.
Bandaríkin eru ein stærsta viðskiptaþjóð Indlands. Mikilvægur hluti indversks útflutnings til Bandaríkjanna eru raftæki, einkum snjallsímar, og Indland hefur notið góðs af ákvörðun Apple um að flytja hluta af iPhone-framleiðslu sinni frá Kína til Indlands.
Enn sem komið er virðast tollarnir ekki ná til snjallsíma eða lyfja, en greiningaraðilar eins og Sanyam Chaurasia hjá Canalys vara við að ef þeir verði útvíkkaðir geti það haft áhrif á verðlagningu Apple á Bandaríkjamarkaði.