Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lofaði í gærkvöldi að kaupa Tesla-rafbíl til að sýna Elon Musk stuðning í kjölfar þess að hlutabréf rafmagnsbílaframleiðandans féllu um 15% í viðskiptum gærdagsins.
Trump sagði á Truth Social-samfélagsmiðlinum sínum að „róttæku vinstri brjálæðingarnir, eins og þeir gera nú oft, eru núna að reyna með ólöglegum hætti að sniðganga Tesla.“
Mótmælendur hafa safnast saman við sölustaði Tesla vítt og breitt um Bandaríkin á síðustu dögum til að mótmæla Musk og Trump.
Samkvæmt Financial Times hafa mótmælin að mestu snúist um umfangsmiklar niðurskurðaraðgerðir Musk sem og stuðning hans við AfD-stjórnmálaflokkinn í Þýskalandi.
Trump lofaði að kaupa „glænýja Teslu“ til að styðja við Musk sem hann sagði vera „sannan og stórkostlegan Bandaríkjamann.“

Trump hefur áður lýst því yfir að rafmagnsbílar væru til þess fallnir að „gjöreyðileggja“ bandaríska bílaframleiðslu en nú virðist sem hann hafi dregið úr þeirri stefnu og ákveðið að fjárfesta í rafbíl.
Hlutabréfaverð Tesla féll um 15,4 prósent á Nasdaq-markaðnum í gær. Dagslokagengi rafbílaframleiðandans var 222,15 dalir á hlut, sem er meira en 54 prósenta lækkun frá hámarki þeirra, 488,54 dollurum, þann 18. desember, samkvæmt LSEG.

Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn lækkaði töluvert í gær en Nasdaq vísitalan lækkaði um 4%, sem er mesta daglega lækkun þessarar vísitölu í tvö og hálft ár.
S&P 500 tapaði 2,7%, sem vekur vaxandi áhyggjur af áhrifum tollastefnu Trump-stjórnarinnar á bandarískan efnahag.
Lækkanirnar vestanhafs smituðu út frá sér og lækkuðu asískir hlutabréfamarkaðir í nótt.
Topix-vísitalan í Japan fór niður um 1,9% og Nikkei 225-vísitalan, sem samanstendur af útflutningsdrifnum félögum, tapaði 1,6%. Kospi-vísitalan í Suður-Kóreu lækkaði um 1,3% og S&P/ASX 200 í Ástralíu um 0,8%.