Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur vakið töluverða athygli með því að leggja til hækkun tekjuskatts á hæstu tekjuhópa þjóðarinnar. Tillagan markar verulegt fráhvarf frá hefðbundinni skattastefnu Repúblikanaflokksins og er hluti af stærra efnahagsátaki sem forsetinn vonast til að fá samþykkt af þinginu á þessu ári.
Markmiðið er að fjármagna umfangsmiklar skattalækkanir fyrir millistéttina og tekjulága, sem og að tryggja áframhaldandi fjármögnun Medicaid, opinbers heilbrigðisþjónustukerfis fyrir efnaminni Bandaríkjamenn.
Samkvæmt heimildum Financial Times hyggst forsetinn láta hæsta tekjuskattsþrepið, sem lækkað var úr 39,6% í 37% með skattabreytingum Trump árið 2017, hækka á ný fyrir einstaklinga með árstekjur yfir 2,5 milljónum Bandaríkjadala eða um 324 milljónir króna á gengi dagsins.
„Forsetanum er kappsmál að tryggja að skattalækkanir skili sér til vinnandi fólks og meðaltekjuhópa. Þessi tillaga þjónar því markmiði og tryggir jafnframt áframhaldandi fjármögnun velferðarkerfa,“ segir aðili nákominn Trump.
Harðorð viðbrögð frá íhaldsmönnum
Tillagan hefur sætt gagnrýni úr röðum skattalækkunarsinna innan Repúblikanaflokksins. Hagsmunasamtökin Americans for Tax Reform, sem eru eindregið andvíg öllum skattahækkunum, sögðu hana líkjast stefnu demókrata og gagnrýndu forsetann harðlega.
„Að hækka tekjuskattsþrep upp í 39,6% er stefna Kamala Harris. Hún tapaði forsetakosningunum fyrir Trump. Það er engin ástæða til að tileinka sér hennar skattastefnu,“ sagði talsmaður samtakanna í yfirlýsingu.
Endurskoðun á ívilnunum til fjárfesta
Ásamt hækkun tekjuskatta á hæstu tekjuhópa hefur forsetinn einnig lýst sig reiðubúinn til að afnema svokallaðan „carried interest“-skattaafslátt, sem hefur lengi veitt fjárfestum á Wall Street, einkum í vogunarsjóðum og einkafjárfestingarfélögum, hagstæð skatthlutföll.
„Umræðan stendur enn yfir innan þingflokksins og ég tel að við finnum ásættanlega lausn,“ sagði Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar og einn helsti bandamaður Trumps á þinginu.