Donald Trump Bandaríkja­for­seti hefur vakið tölu­verða at­hygli með því að leggja til hækkun tekju­skatts á hæstu tekju­hópa þjóðarinnar. Til­lagan markar veru­legt fráhvarf frá hefðbundinni skatta­stefnu Repúblikana­flokksins og er hluti af stærra efna­hags­átaki sem for­setinn vonast til að fá samþykkt af þinginu á þessu ári.

Mark­miðið er að fjár­magna um­fangs­miklar skattalækkanir fyrir milli­stéttina og tekjulága, sem og að tryggja áfram­haldandi fjár­mögnun Medi­ca­id, opin­bers heil­brigðisþjónustu­kerfis fyrir efna­minni Bandaríkja­menn.

Sam­kvæmt heimildum Financial Times hyggst for­setinn láta hæsta tekju­skattsþrepið, sem lækkað var úr 39,6% í 37% með skatta­breytingum Trump árið 2017, hækka á ný fyrir ein­stak­linga með árs­tekjur yfir 2,5 milljónum Bandaríkja­dala eða um 324 milljónir króna á gengi dagsins.

„For­setanum er kapps­mál að tryggja að skattalækkanir skili sér til vinnandi fólks og meðal­tekju­hópa. Þessi til­laga þjónar því mark­miði og tryggir jafn­framt áfram­haldandi fjár­mögnun vel­ferðar­kerfa,“ segir aðili nákominn Trump.

Harðorð viðbrögð frá íhalds­mönnum

Til­lagan hefur sætt gagn­rýni úr röðum skattalækkunar­sinna innan Repúblikana­flokksins. Hags­muna­samtökin Americans for Tax Ref­orm, sem eru ein­dregið and­víg öllum skatta­hækkunum, sögðu hana líkjast stefnu demókrata og gagn­rýndu for­setann harð­lega.

„Að hækka tekju­skattsþrep upp í 39,6% er stefna Kamala Har­ris. Hún tapaði for­seta­kosningunum fyrir Trump. Það er engin ástæða til að til­einka sér hennar skatta­stefnu,“ sagði tals­maður sam­takanna í yfir­lýsingu.

Endur­skoðun á ívilnunum til fjár­festa

Ásamt hækkun tekju­skatta á hæstu tekju­hópa hefur for­setinn einnig lýst sig reiðu­búinn til að af­nema svo­kallaðan „carri­ed interest“-skatta­afslátt, sem hefur lengi veitt fjár­festum á Wall Street, einkum í vogunar­sjóðum og einka­fjár­festingarfélögum, hagstæð skatt­hlut­föll.

„Um­ræðan stendur enn yfir innan þing­flokksins og ég tel að við finnum ásættan­lega lausn,“ sagði Mike John­son, for­seti full­trúa­deildarinnar og einn helsti banda­maður Trumps á þinginu.