Donald Trump Bandaríkja­for­seti hefur kynnt nýja loft­varnaráætlun, „Gyllta hvolfþakið“, sem hann segir að verði komið í gagnið á innan við þremur árum. Um er að ræða stærsta og dýrasta eld­flauga­varna­verk­efni í sögu Bandaríkjanna.

Á blaða­manna­fundi í Hvíta húsinu til­kynnti Trump að heildar­kostnaður verk­efnisins nemi um 175 milljörðum dollara eða um 22.566 milljörðum króna á gengi dagsins. Um er að ræða tæp­lega fimm­falda lands­fram­leiðslu Ís­lands í fyrra.

Sam­kvæmt Trump verða fyrstu 25 milljarðarnir fjár­magnaðir í gegnum fjár­laga- og skatta­laga­frum­varp ríkis­stjórnarinnar, sem nú er til um­ræðu á Bandaríkjaþingi.

Sam­kvæmt Trump verða fyrstu 25 milljarðarnir fjár­magnaðir í gegnum fjár­laga- og skatta­laga­frum­varp ríkis­stjórnarinnar, sem nú er til um­ræðu á Bandaríkjaþingi.

Verk­efnið ber nafnið „Golden Dome“ eða „Gyllta hvolfþakið“, aug­ljós­lega í til­vísun við „Iron Dome“, eld­flauga­varnar­kerfi Ís­raels.
Trump sagði það verða „full­kom­lega virkt“ fyrir lok kjörtíma­bils hans og að kerfið muni nýta nýjustu tækni „á landi, sjó og í geimnum“.

Ekki til­búin tækni

Þótt Trump hafi full­yrt að kerfið muni geta grandað bæði lang­drægum og ofur­hraðfleygum eld­flaugum með hjálp leysitækni og gervi­hnatta, benda sér­fræðingar á að hluti þeirrar tækni sem á að styðjast við sé enn ekki til.

Trump var studdur af varnar­málaráðherra sínum, Pete Heg­seth, og her­foringjum úr bandarísku geim­her­deildinni, þar á meðal Michael Guetlein hers­höfðingja sem mun leiða verk­efnið.

For­setinn vísaði einnig til Ronald Reagan og Star Wars-verk­efnisins úr kalda stríðinu sem aldrei varð að veru­leika.

„Reagan vildi þetta fyrir mörgum árum, en þá hafði enginn tæknina. Nú höfum við hana,“ sagði Trump.

Trump kvaðst treysta á bandarískan tækni­geira og lýsti sér­stak­lega miklu trausti til tækni­fyrir­tækja í kisíldalnum. „Við höfum hluti sem enginn annar hefur,“ sagði hann.

Fyrir­tæki á borð við SpaceX, Palantir og Anduril eru talin lík­leg til að fá verk­efni, ásamt hefðbundnum varnar­samninga­fyrir­tækjum á borð við Lock­heed Martin og RTX.

Lock­heed hefur þegar opnað vefsíðu þar sem fyrir­tækið lýsir sig til­búið til að „taka þátt í verk­efni á stærð við Man­hattan-verk­efnið“.