Donald Trump Bandaríkjaforseti segist óánægður með það hversu lengi það hefur tekið Boeing að smíða tvær nýjar Air Force One-flugvélar fyrir forsetaembættið. Hann segist nú vera að leita að öðrum valkostum.
Trump lét ummælin falla um borð í 35 ára gamalli Air Force One-vél sem er enn í notkun en samið var um tvær uppfærðar flugvélar á fyrsta kjörtímabili Trump.
Aðspurður um hvort Trump myndi þá frekar kaupa flugvél af keppinaut Boeing, Airbus, segir Trump að hann myndi ekki gera það og taldi líklegra að hann myndi kaupa eldri Boeing-flugvél og umbreyta henni.
Áætlað var að Boeing myndi afhenda flugvélarnar árið 2024 en hefur nú seinkað afhendingunum til 2027-2028.
Á sínu fyrsta kjörtímabili vildi Trump neyða flugvélaframleiðandann til að endursemja samninginn við embættið en sá samningur hefði kostað Boeing milljarða dala.