Donald Trump tók nýlega við forsetaembættinu í Bandaríkjunum í annað sinn og var hann ekki lengi að beina spjótum sínum að þeim sem hann telur vera erkifjendur Bandaríkjanna. Hann ítrekaði afstöðu sína um innflutningstolla og talaði einnig um stöðu landamæranna.

Í setningarræðu sinni tók hann einnig fyrir Panamaskurðinn, sem Bandaríkin byggðu árið 1914 en skiluðu svo aftur til Panama árið 1977 undir leiðsögn Jimmy Carter. Bandaríkin höfðu þó haft stjórn á skurðinum síðan 1903.

Árið 1989 réðust svo Bandaríkjamenn inn í Panama til að steypa þáverandi leiðtoga landsins, Manuel Noriega, af valdastóli og tíu árum síðar endurheimtu yfirvöld í Panama aftur fulla stjórn af skurðinum.

Trump vill hins vegar meina að það séu í raun Kínverjar sem stjórni Panamaskurðinum og fullyrti hann að Bandaríkin hafi aldrei gefið Kínverjum skurðinn og að nú sé kominn tími til að endurheimta hann.

Á jóladag birti Trump færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann benti á að hinn dásamlegi kínverski alþýðuher væri, með ást, en með ólöglegum hætti að reka Panamaskurðinn. Sú fullyrðing féll í grýttan jarðveg hjá bæði ríkisstjórnum Panama og Kína sem voru ekki lengi að neita þessari fullyrðingu.

José Raúl Mulino, forseti Panama, lýsti fullyrðingunni sem vitleysu og sagði að það væru engin afskipti af hálfu Kínverja í rekstri Panamaskurðar. Trump hefur þó hótað að taka skurðinn til baka með valdi og vitnar í ofurhá gjöld sem bandarísk skip þurfa að greiða til að sigla þar í gegn.

Kínversk viðvera og fjárfesting

Afstaðan endurspeglar hins vegar áhyggjur sumra bandarískra embættismanna um fjárfestingar Kínverja í skurðinum og nærliggjandi innviðum. Ekkert bendir til þess að kínversk stjórnvöld fari með yfirráð á þessum slóðum en kínversk fyrirtæki hafa engu að síður talsverða viðveru við skurðinn.

„Bandaríkjamönnum var á þeim tíma í raun alveg sama um þessar hafnir“

Frá október 2023 til september 2024 kom 21,4% af öllum varningi sem sigldi í gegnum skurðinn frá Kína. Það þýðir að Kína er næststærsti notandi skurðsins á eftir Bandaríkjunum. Þá hafa Kínverjar fjárfest mikið í höfnum og flugstöðvum í grennd við Panamaskurðinn.

Fimm hafnir liggja að Panamaskurðinum en tvær þeirra, Balboa og Cristóbal, sem sitja Kyrrahafsmegin og Atlantshafsmegin, hafa verið reknar af dótturfélagi Hutchison Port Holdings síðan 1997.

Fyrirtækið er dótturfélag CK Hutchison Holdings sem er samsteypufélag í Hong Kong og var stofnað af Li Ka-shing. Fyrirtækið er einnig með starfsemi í höfnum í 24 öðrum löndum.

Andrew Thomas, prófessor við háskólann í Akron, skrifaði í bókinni sinni The Canal of Panama and Globalization að þegar tilboðin bárust um kaup á þessum höfnum mætti CK Hutchinson litla sem enga samkeppni.

„Bandaríkjamönnum var á þeim tíma í raun alveg sama um þessar hafnir og var því enginn sem andmælti þessum kaupum,“ segir Thomas. Hann bætir við að forsetinn sé mögulega að nota þessa staðreynd til að styðja við fullyrðingu Trumps um að skurðurinn sé í eigu Kínverja en segir að rekstur þessara hafna jafngildi ekki eignarhaldi.