Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í viðtali við NBC News um helgina að hann væri „ekki að grínast“ þegar hann ræðir möguleikann á því að sækjast eftir þriðja kjörtímabili í forsetaembættinu, þrátt fyrir að stjórnarskrá Bandaríkjanna heimili það ekki.

Trump, sem er 78 ára gamall, sagði þó að það væri „allt of snemmt að velta því fyrir sér“ en staðfesti að hann væri opinn fyrir möguleikanum, samkvæmt Financial Times.

„Margir vilja að ég geri þetta,“ sagði hann og bætti við: „Ég segi fólki almennt að það sé langt í land, við erum mjög snemma á þessu kjörtímabili.“

Samkvæmt 22. viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar má enginn forseti sitja lengur en tvö kjörtímabil. Trump sagði hins vegar að til væru leiðir til að komast fram hjá þessu ákvæði. Til þess að slíkt yrði mögulegt þyrfti annaðhvort samþykki tveggja þriðju þingmanna í báðum deildum Bandaríkjaþings eða að tveir þriðju hlutar ríkjanna myndu kalla saman sérstakt stjórnarskrárþing.

Repúblikaninn Andy Ogles, þingmaður frá Tennessee, hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér breytingu á 22. viðauka stjórnarskrárinnar til þess að Trump geti boðið sig fram á ný.

Hingað til hefur frumvarpið hins vegar ekki fengið nægilegan stuðning á þingi né meðal ríkjanna.

Trump hefur áður ítrekað nefnt þriðja kjörtímabilið í hálfkæringi, en með þessu virðist hann bæði vilja ögra pólitískum andstæðingum sínum og forðast að vera skilgreindur sem svokölluð lame duck á núverandi kjörtímabili sínu.

Spurður um hvort núverandi varaforseti hans, JD Vance, gæti hugsanlega tekið við forsetaembættinu árið 2028 og síðan skilað því aftur til Trump, sagði forsetinn það „einn möguleika“ en bætti við að aðrir möguleikar væru einnig fyrir hendi.

Fyrrum ráðgjafi Trumps í Hvíta húsinu, Steve Bannon, hefur einnig fullyrt að Trump muni „bjóða sig fram og vinna forsetakosningarnar árið 2028“.