Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýndi fyrrverandi ráðgjafa sinn Elon Musk harðlega á blaðamannafundi á forsetaskrifstofunni í dag vegna ummæla Musk um fjárlagafrumvarp sem Trump vinnur að því að ná í gegnum þingið.

„Ég er mjög vonsvikinn því Elon þekkti efni frumvarpsins betur en nánast nokkur annar sem situr hér,“ hefur WSJ eftir Trump.

Þetta er í fyrsta sinn sem Trump tjáir sig opinberlega um gagnrýni Musk á fjárlagafrumvarpið. Hann rakti óánægju Musk, forstjóra Tesla, til ákvæðis sem fellir úr gildi kolefnisheimildir fyrir rafbíla.

Trump sagði Musk einnig ósáttan við ákvörðun sína um að draga til baka tilnefningu á Jared Isaacman, bandamanni Musk, til að leiða Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA).

„Elon og ég áttum í frábæru sambandi. Ég veit ekki hvort svo verði framvegis.“

Elon hefur birt nokkrar færslur á samfélagsmiðlinum X þar sem hann hefur m.a. kallað frumvarpið „viðbjóð“ og hótaði því að ætla að bola burt þingmönnum Repúblikana sem hyggjast samþykkja frumvarpið.

Musk segir í færslu á X að Trump fari með rangt mál þegar forsetinn tali um að hann hafi fengið að sjá frumvarpið.