Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, telur rökrétt að forseti Bandaríkjanna komi að vaxtaákvörðun seðlabankans.
Ef svo yrði myndi það snúa við áratugalangri hefð um sjálfstæði seðlabankans sem þarf oft að taka nauðsynlegar ákvarðanir sem eru óvinsælar meðal stjórnmálamanna, líkt og vaxtahækkanir.
„Mér finnst að forseti Bandaríkjanna ætti að minnsta kosti að hafa eitthvað að segja um vaxtaákvarðanir, ég er sannfærður um það,“ sagði Trump á blaðamannafundi í gær en The Wall Street Journal greinir frá.
Þegar Trump var forseti gagnrýndi hann Jerome Powell seðlabankastjóra oft fyrir að hafa tekið að hans mati „rangar ákvarðanir“ í embætti. Árið 2020 íhugaði Trump að lækka Powell í tign og skipa nýjan seðlabankastjóra. Slík ákvörðun hefði þó líklegast farið á svig við lög.
Hagfræðingum vestanhafs hugnast hugmyndir forsetans fyrrverandi illa þar sem stjórnmálamönnum vilja oft hafa lága vexti til að kaupa sér vinsældir slíkt gæti þó haft neikvæð áhrif á verðbólgu.
Seðlabankinn hefur staðið vörð um sjálfstæði sitt í meira en hálfa öld eftir að verðbólgan á áttunda áratug síðustu aldar fór upp úr öllu valdi meðal annars vegna þess að Nixon tókst að sannfæra seðlabankastjóra Bandaríkjanna um að halda vöxtum lágum í aðdraganda forsetakosninganna árið 1972.