Liz Truss, utanríkisráðherra Bretlands, sigraði leiðtogakjör breska Íhaldsflokksins. Hún tekur því við embætti forsætisráðherra Bretlands af Boris Johnson á morgun. Niðurstöður kjörsins voru tilkynntar um hádegisleytið í dag.

Eftir sjö vikna leiðatogakjör hafði Truss betur gegn Rishi Sunak, sem sagði af sér sem fjármálaráðherra í byrjun júlí. Truss hlaut 81.326 atkvæði en 60.399 greiddu atkvæði með Sunak.

Truss mun hitta Elísabetu Bretadrottningu á morgun í Balmoral í Skotlandi, sveitasetri bresku konungsfjölskyldunnar. Í kjölfarið mun hún snúa strax aftur til London og ávarpa bresku þjóðina fyrir utan Downingstræti og tilkynna um skipun ráðherra.

Hin 47 ára gamla Truss hefur heitið því að ráðast í ýmsar skattalækkanir sem verða að stórum hluta fjármagnaðar með lántöku að því er kemur fram í frétt Financial Times. Með þessum aðgerðum vill hún reyna að koma í veg fyrir að breska hagkerfið fari í langvarandi efnahagssamdrátt.