Tryggingafélög búa sig nú undir tjón upp á allt að 20 milljarða dala vegna gróðureldanna sem geisa í Los Angeles, samkvæmt áætlunum greiningaraðila. Financial Times greinir frá.

Greinandi JPMorgan tvöfaldaði í dag fyrra mat sitt frá því í gær um að tjón tryggingafélaga yrði í kringum 10 milljarðar dala.

„Væntingar um efnahagslegt tjón af völdum eldanna hafa meira en tvöfaldast frá gærdeginum og eru nú í kringum 50 milljarðar dala. Við áætlum að tjón tryggingafélaga vegna atburðarins gæti farið yfir 20 milljarða dala (og jafnvel enn hærra ef ekki verður náð tökum á eldunum),“ segir í bréfi greinandans til viðskiptavina.

Lánshæfisfyrirtækið Moody‘s segist gera ráð fyrir að tryggingatjón muni hlaupa á milljörðum dala í ljósi hás verðmats á fasteignum og öðrum eignum á þeim svæðum sem um ræðir. Frummat Morningstar DBRS á tjóni tryggingafélag hljóðaði upp á meira en 8 milljarða dala.

Yfir 100 þúsund manns hefur verið gert að yfirgefa heimili sín. Þá er talið að um 15 þúsund byggingar séu í hættu.

Tryggingafélög sem hafa sérhæft sig í fasteignatryggingum fyrir dýrt íbúðarhúsnæði horfa fram á háar tjónagreiðslur. Allstate, Travelers og Chubb eru talin þau félög sem eru talin geta orðið fyrir mestum áhrifum af gróðureldunum.