Indverska samsteypan Adani Group hefur tjáð lánardrottnum sínum að hún hafi tryggt sér aðgang að 3 milljarða dala lánalínu frá ónefndum þjóðarsjóði en samsteypan vinnur enn að því að því að róa fjárfesta í kjölfar ásakana skortsala um markaðsmisnotkun og bókhaldssvindl.

Heimildarmaður Reuters segir að Adani Group geti stækkað lánalínuna upp í 5 milljarða dala. Þá hafi stjórnendur Adani samsteypunnar tjáð fjárfestum að umræddur þjóðarsjóður væri frá Mið-Austurlöndum.

Frá því að skortsalinn Hindenburg Research birti skýrslu með ásökunum á hendur Adani Group og tengdra félaga hefur markaðsvirði félaganna lækkað um tæplega 140 milljarða dala.

Stofnandi og aðaleigandi félaganna, Gautam Adani var í ársbyrjun ríkasti maður Asíu og þriðji ríkasti maður heims samkvæmt rauntímalista Forbes en auðæfi hans voru metin á yfir hundrað milljarða dala. Það eru nú metin á 37,8 milljarða dala eftir 7,6% hækkun í dag en hlutabréf ýmissa Adani félaga hafa hækkað í kjölfar fregna um ofangreinda lánalínu.