Vátryggingamiðlunarfélagið Tryggja skilaði 90 milljóna króna hagnaði árið 2023 samanborið við 64 milljóna hagnað árið áður. Tryggja er í jafnri eigu Smára Ríkarðssonar, framkvæmdastjóra félagsins, og Baldvins Samúelssonar.

Velta félagsins jókst um 20% milli ára og nam 731 milljón króna. Rekstrartekjur Tryggja í fyrra voru um tvöfalt hærri en árið 2021 en velta félagsins hefur vaxið hratt á undanförnum árum.

Smári og Baldvin eru jafnframt stærstu hluthafar Aspar líftryggingafélags hf. sem hyggst bjóða upp á líf- og persónutryggingar. Tryggja er með samning við Ösp um afnot og rekstur á tölvukerfi sem hannað var af Tryggja og eins mun Tryggja sjá um bakvinnslu fyrir Ösp þegar starfsleyfi frá Seðlabanka Íslands hefur fengist.

„Tækifærin fyrir 2024 eru fjölmörg en félagið er með marga spennandi kosti í farvatninu. Ösp líftryggingafélag mun væntanlega vera einn af stóru þáttunum í daglegri starfsemi,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi Tryggja.

„Skaðatryggingahluti félagsins er að taka breytingum en félagið hyggst bæta verulega í starfsemi sína á fyrirtækjasviði. Fyrirtæki og stofnanir þurfa að skoða vátryggingar tengdum netglæpum sem er sístækkandi ógn, fyrirtæki í ferðaþjónustu munu líklega vilja skoða sérhæfðar vátryggingar fyrir náttúruvá vegna sinnar starfsemi, stjórnendaábyrgðartryggingar munu líklega verða með breiðari markhóp en áður en breytt heimsmynd og síbreytilegt efnahagsumhverfi mun reyna verulega á þolþrif marga fyrirtækja og stofnana.“

Eignir Tryggja voru bókfærðar á 530 milljónir króna í árslok 2023 og eigið fé var um 223 milljónir.

Lykiltölur / Tryggja ehf.

2023 2022
Rekstrartekjur 731 608
Hagnaður 90 64
Eignir 530 415
Eigið fé 223 150
Ársverk 10 10
- í milljónum króna