Volkswagen hefur neyðst til að innkalla þúsundir Audi og Porsche-bíla í Bandaríkjunum vegna ýmissa hugbúnaðarvandamála. Á vef WSJ segir að hátt í 44 þúsund Audi-bílar verði innkallaðir og tæplega 8.500 Porsche-bílar.

Samkvæmt bandaríska þjóðvegaráðuneytinu eru ákveðnar gerðir af Audi sem framleiddir voru árið 2021 með vandamál sem gæti leitt til bilunar í mælaborðsskjáum.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að bilunin geti haft þau áhrif að ákveðnar öryggisupplýsingar eins og hraðamælar og viðvörunarljós birtist ekki og gæti það aukið líkurnar á árekstri.

Porsche-bílarnir, sem framleiddir voru árin 2024 og 2025, virðast glíma við eigið tæknivandamál þar sem baksýnismyndavélarnar sýna annaðhvort óskýra eða enga mynd.

Þar að auki hafa nokkur vandamál komið upp á í tengslum við loftpúða í ákveðnum Porsche 2022-2023 Taycan-bílum. Kerfisvillan gæti leitt til þess að loftpúðarnir virki ekki í rúmlega 9.700 ökutækjum.