Ætla má að bræðurnir Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, eigendur Ikea á Íslandi, fái tugi milljarða króna í sinn hlut við sölu á rekstri Ikea í Eystrasaltsríkjunum, miðað við afkomuna af rekstrinum undanfarin ár. Um leið má ætla að um sé að ræða eina stærstu sölu á erlendu fyrirtæki í eigu Íslendinga á síðustu árum en fjárfestirinn Björgólfur Thor Björgólfsson hefur verið hvað atkvæðamestur á því sviði.

Eins og greint var frá á dögunum hafa bræðurnir samþykkt að selja rekstur Ikea í Eistlandi, Lettlandi og Litháen til Inter Ikea Group en þeir munu áfram eiga og reka Ikea á Íslandi. Reiknað er með að viðskiptin verði frágengin fyrir árslok að gefnu samþykki eftirlitsaðila.

Um 57% eignarhlutur Eignarhaldsfélagsins Hofs í hollensku dótturfélagi sem heldur utan um reksturinn í Eystrasaltslöndunum, FE Corporation B.V., var bókfærður á 7,5 milljarða króna í árslok 2023, í ársreikningi samstæðunnar. Miðað við það var allt hlutafé félagsins metið á rúmlega 13 milljarða króna en ljóst er þó að kaupverðið hefur verið töluvert hærra en það.

Bræðurnir áttu 97% hlut í FE Corporation. Eins og fyrr segir áttu þeir 57% hlut í gegnum Eignarhaldsfélagið Hof. Þá átti hvor fyrir sig 20% hlut í hollenska félaginu í gegnum fjárfestingarfélögin Dexter Fjárfestingar ehf. og Fari ehf. Sigurður Gísli og Jón eiga hvor um sig helmingshlut í Eignarhaldsfélaginu Hofi í gegnum umrædd fjárfestingarfélög.

76% tekna frá Eystrasaltinu

Í nýjasta ársreikningi Hofs eignarhaldsfélags, sem nær yfir tímabilið 1. september til 31. ágúst 2023, kemur fram að 76% rekstrartekna félagsins á tímabilinu hafi komið frá Eystrasaltslöndunum og 24% frá Íslandi. Rekstrarárið á undan kom 72% af rekstrartekjum frá Eystarasaltslöndunum og 28% frá Íslandi.

Félagið velti tæplega 62 milljörðum rekstrarárið 2023 og því nam hlutdeild Eystrasaltsstarfseminnar tæplega 47 milljörðum króna á síðasta ári. Rekstrarárið á undan nam heildarvelta 48 milljörðum króna en þar af nam hlutdeild Eystrasaltsstarfseminnar tæplega 35 milljörðum króna. Velta hefur nærri þrefaldast frá árinu 2018.

Hagnaður síðasta rekstrarárs nam 6,7 milljörðum króna en árið áður nam hagnaður 5,2 milljörðum. Alls hefur félagið hagnast um rúmlega 24 milljarða króna á síðustu fimm rekstrarárum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og efni blaðsins hér.