Hluta­bréf Ís­lands­banka lækkuðu lítil­lega í verði í dag í við­skiptum að and­virði um 2,5 milljarða króna. Gengi bréfanna lækkaði um 0,43% og endaði í 117 krónum á hlut.

Heildar­velta með bréf bankans síðustu fimm við­skipta­daga nemur rúm­lega 21 milljarði króna.

Veltan jókst veru­lega um miðja viku þegar fjár­festar fengu af­hent bréf í kjölfar út­boðs ríkisins fyrr í mánuðinum.

Alls voru skráð 484 við­skipti með bréf bankans í dag, sem endur­speglar mjög virkan markað.

Gengi bréfanna hækkaði ör­lítið við opnun markaðar, fór yfir 118 krónur, en tók síðan að lækka jafnt og þétt eftir há­degi. Lægsta skráð við­skipta­verð fór niður í 116 krónur, en gengið endaði í 117 krónum við lokun.

Dagsetning Velta (kr.) Fjöldi viðskipta
23. maí 2025 2.500.000.000 487
22. maí 2025 6.256.010.045 1.359
21. maí 2025 9.972.304.676 768
20. maí 2025 1.319.864.405 155
19. maí 2025 1.189.941.650 63

Nokkur stór við­skipti áttu sér stað á reglu­legu milli­bili frá því snemma morguns og fram yfir há­degi.

Við opnun markaða var til­kynnt um utan­þings­við­skipti með 180.557 hluti á genginu 117,5 krónur, sem sam­svarar við­skiptum að and­virði um 21,2 milljóna króna.

Kl. 09:41 var greint frá við­skiptum með 500.000 hluti á genginu 118 krónur á hlut, sem jafn­gildir um 59 milljónum króna.

Aðeins þremur mínútum síðar, kl. 09:44, áttu sér stað enn stærri við­skipti þar sem 1.000.000 hluta voru seldir á sama verði, með heildar­virði upp á um 118 milljónir króna. Sam­tals námu þessi þrjú við­skipti nær 200 milljónum króna.

Mesta hækkun dagsins var hjá sjávarút­vegs­fyrir­tækinu Brim, en hluta­bréf þess hækkuðu um 3,23% og stóðu í 64 krónum við lokun.

Gengi Amaroq Minerals hækkaði um 3,06% og lokaði 51,5 krónum. Þá hækkuðu bréf Sjóvár um 1,24%, í 48,8 krónur.

Úr­vals­vísi­talan lækkaði um 0,33% í dag.

Heildar­velta á aðal­markaði Kaup­hallar Ís­lands nam alls 5,4 milljörðum króna, dreift á 924 við­skipti, og bar dagurinn þess merki að markaðurinn væri bæði djúpur og virkur.