Samanlagðar undanþágur nýskráðra raf- og tengiltvinnbíla hér á landi frá virðisaukaskatti nema um eða yfir 25 milljörðum króna frá ársbyrjun 2020, þar af um 9 milljörðum hvort árin 2021 og 2022.
Ívilnanir vegna kaupa á rafbílum tóku gildi árið 2012 í formi niðurfellingar virðisaukaskatts auk þess sem þeir báru engin vörugjöld, ólíkt sprengihreyfilsbílum sem greiða þurfti frá 30 og upp í 45% vörugjald fyrir við skráningu, sem virðisaukaskatturinn lagðist síðan ofan á.
Framan af gengu orkuskiptin þrátt fyrir það afar hægt, enda úrvalið enn örlítið, innviðir litlir sem engir og tæknin og útfærsla hennar á vissan hátt enn á tilraunastiginu. Undir lok áratugar fóru hjólin svo loks að snúast af alvöru og nýskráningar hreinna rafbíla ellefufölduðust á fimm árum og voru 4.496 talsins árið 2021. Samanlagt hefur úrræðið nú útheimt 34 milljarða króna eftirgjöf virðisaukaskatts.
Rannsóknir hafa sýnt, meðal annars nokkuð umfangsmikil rannsókn Hagfræðistofnunar HÍ í fyrrasumar, að undanþága rafbíla frá virðisaukaskatti er með óskilvirkustu og kostnaðarsömustu leiðum sem hugsast getur til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar sem kom út á fimmtudag, 19. apríl.