British Airways hefur aflýst að minnsta kosti 42 flugferðum út af tæknilegu vandamáli í tölvukerfi flugfélagsins. Raskanirnar hafa haft áhrif á rúmlega 16.000 farþega á Heathrow flugvellinum í London.

Flugfélagið hefur beðist afsökunar á ástandinu og segir að tæknilegur erfiðleiki hafi orðið til þess að farþegar gátu ekki innritað sig á netinu og var starfsfólk British Airways einnig sent á vitlausa staði.

„Langflestar flugferðir hafa farið samkvæmt áætlun en við höfum þó þurft að aflýsa nokkrum ferðum frá Heathrow flugvellinum sökum keðjuverkandi áhrifa frá tæknilegu vandamáli sem við lentum í í gær,“ segir flugfélagið í yfirlýsingu.

Atvikið kemur á einum annasamasta ferðadegi síðan 2019 en margir Bretar eru nú á leið í frí. Þetta er heldur ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist en árið 2017 varð tæknileg bilun í tölvukerfi British Airways sem varð til þess að 75.000 farþegar urðu strandaglópar.