Árið 2001 hóf Alþjóðahús starfsemi sem þekkingar- og þjónustufyrirtæki á sviði fjölmenningar og mannréttinda. Alþjóðahúsið var þá einnig upplýsingamiðstöð fyrir bæði innflytjendur og innfædda um málefni innflytjenda.

Meginhlutverk þess sneri að því að auðvelda aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi og að auðvelda þeim sem fyrir væru að aðlagast breyttri samfélagsmynd.

Upphaflega var húsið einkahlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kópavogsbæjar og Seltjarnarneskaupstaðar en starfsemi þess kom þá í stað Miðstöðvar nýbúa, sem heyrði undir Íþróttaog tómstundaráð borgarinnar.

Árið 2015 var svo ákveðið að endurnýja merki félagsins sem var afhjúpað í janúar þegar starfsemi Alþjóðaseturs var flutt í sitt núverandi húsnæði við Álfabakka í Mjóddinni.

„Við erum með þjónustusamninga við ríkið, Reykjavíkurborg, Landspítala og ýmsar aðrar stofnanir og sveitarfélög. Innan fjölbreytts hóps viðskiptavina okkar eru meðal annars allar helstu ríkisstofnanir, sveitarfélög, heilsugæslur, heilbrigðisstofnanir og spítalar, leikskólar og grunnskólar, félagsþjónustur, lögreglan og dómstólar, einkafyrirtæki og einstaklingar,“ segir Sigríður Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Alþjóðaseturs.

Túlkaþjónusta er lögbundinn réttur einstaklinga þegar kemur að þjónustu í kjarnainnviðum, til að mynda á heilbrigðissviði, félagsmálasviði, menntasviði, hjá lögreglu eða fyrir dómi.

„Til að takast á við aukin umsvif höfum við byggt upp gríðarlega öflugan og flottan hóp af hæfu tungumálafólki, og haldið vel utan um gæðamál í tengslum við mennta- og hæfiskröfur og rekjanleika gagna.“

Aukin þörf á túlkaþjónustu

Vöxtur fyrirtækisins hefur verið töluverður og stöðugur undanfarin ár. Sigríður segir aukin umsvif tengjast að miklu leyti þróun í innflytjenda- og ferðamannamálum, fjölþjóðasamfélagsvæðingu og mannréttindum.

Tæknivæðing spili þar einnig stórt hlutverk en í dag notast fyrirtækið við upplýsingakerfi í skýinu og býður upp á rafrænt pantanaferli.

„Allir starfsmenn okkar notast við sérhannað snjallforrit sem veitir yfirsýn yfir verkefni þeirra, skrásetur verktíma í rauntíma, og tekur við rafrænni undirskrift viðskiptavinar. Allar upplýsingar skila sér svo haganlega út í reikning til viðskiptavinar.“

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.