Í dag eru 28 ár liðin frá því að Bretar afhentu Kínverjum stjórn yfir Hong Kong en eyjan varð bresk nýlenda eftir lok Fyrra ópíumstríðsins árið 1842. Yfirráðasvæði Breta var svo stækkað eftir Annað ópíumstríðið 1860 og fengu Bretar síðan 99 ára yfirráðssamning árið 1898.

Þegar Bretar skiluðu Hong Kong árið 1997 voru hin svokölluðu grunnlög innleidd en þau áttu að tryggja ákveðin grunnréttindi sem voru ekki til staðar á kínverska meginlandinu.

Á undanförnum árum hefur þessi dagsetning einkennst af mótmælum aðgerðarsinna gegn kínverskum yfirvöldum. Mótmælin náðu hæstum hæðum árið 2019 en ári seinna voru innleidd öryggislög af hálfu kínverskra stjórnvalda sem hafa nú kæft slík mótmæli.

Í tilkynningu sinni skrifaði John Lee, ríkisstjóri Hong Kong, að yfirvöld myndu halda áfram að varðveita hina svokölluðu Eitt land, tvö kerfi-stefnu og að Hong Kong njóti nú sterks stuðnings frá kínverskum stjórnvöldum.

„Með sinni tvíhliða stefnu hefur Kína auðveldað fyrirtækjum að stunda alþjóðlega starfsemi og laðað til sín erlendar fjárfestingar. Hong Kong mun halda áfram að gegna sínu tengjandi og virðisaukandi hlutverki enn frekar til að auka viðskiptatækifæri og leggja meira af mörkum til hágæðaþróunar.“

Samkvæmt tölum frá Hong Kong Exchanges and Clearing Ltd. nam virði hlutabréfamarkaðarins í Hong Kong um 5,5 billjónum Bandaríkjadala fyrir helgi. Það samsvarar rúmlega 13 földun aukningu frá lokum árs 1997.

Deloitte China greindi jafnframt frá því að hlutabréfamarkaðurinn í Hong Kong hefði verið í efsta sæti í alþjóðlegri fjáröflun á fyrri helmingi þessa árs. Þar á eftir kom Nasdaq og New York Stock Exchange. Á sama tíma hafa bankainnstæður hjá stofnunum í Hong Kong aukist um 4% milli ára.

Réttindum skipt út fyrir fjármagn

Stjórnvöld í bæði Peking og Hong Kong benda á þessa þróun og segja hana skýrt dæmi um þau jákvæðu áhrif sem kínversk yfirvöld hafa haft á hagkerfi eyjunnar. Ríkisstjórinn segir jafnframt að borgin sé nú öruggari og bjóði upp á meiri samkeppni en áður.

Í dag eru fimm ár frá því að öryggislöggjöfin var innleidd og samþykkti ríkisstjórn Hong Kong sín eigin öryggislög árið 2024 sem stjórnin sagði að væru nauðsynleg til að koma á reglu.

Árið 2019 mættu tvær milljónir íbúa út á götur Hong Kong til að mótmæla frumvarpi stjórnvalda um að heimila framsal til meginlands Kína.
© Associated Press (AP)

Evrópusambandið sagði í gær í sameiginlegri tilkynningu í gær að öryggislögin væru notuð til að bæla niður pólitíska andstöðu í landinu og grafa undan trausti á réttarkerfi og alþjóðlegu orðspori Hong Kong.

Á sunnudaginn var Jafnaðarmannaflokkurinn, síðasti stjórnarandstöðuflokkur Hong Kong, leystur upp vegna pólitísks þrýstings og áhyggna vegna öryggis meðlima. Hann var jafnframt annar lýðræðisflokkurinn sem tilkynnti áform um að leggja niður starfsemi á þessu ári eftir að Demókrataflokkurinn gerði slíkt hið sama í febrúar.

Fráfarandi ræðismaður Bandaríkjanna í Hong Kong, Gregory May, gagnrýndi einnig stjórnvöld í Hong Kong í síðustu viku fyrir það að nota öryggislögin til að ráðast gegn aðgerðarsinnum á erlendri grundu.

Framkvæmdir á næsta leiti

Samhliða fullyrðingum um öryggi og velmegun hefur John Lee einnig greint frá áætlun um byggingarframkvæmdir nálægt landamærum Hong Kong við kínverska meginlandið. Verkefnið ber heitið Northern Metropolis og mun þekja um þriðjung af Hong Kong.

Aðgerðasinnar og heimamenn hafa þó lýst yfir áhyggjum af hugsanlegum umhverfisáhrifum verkefnisins og því álagi sem það mun setja á opinber útgjöld Hong Kong.

Stór hluti verkefnisins verður tileinkaður tæknigeiranum og verður hið svokallaða San Tin Technopole byggt á rúmlega 600 hektara landsvæði. Hugmyndin á bak við tæknihverfið verður að laða fleiri sérfræðinga og tæknifyrirtæki til Hong Kong.

Fjölmargir íbúar Hong Kong eru hins vegar á móti uppbyggingu á svæðinu og samkvæmt South China Morning Post segjast 80% vera á móti framkvæmdunum sem munu meðal annars leiða til eyðileggingar fiskitjarna.