Útgerðarfélagið Ísfélagið, sem fór á markað í morgun, hefur birt tuttugu stærstu hluthafa félagsins að loknu hlutafjárútboði sem lauk 1. desember
Boðnir voru til sölu 118.923.851 þegar útgefnir hlutir í félaginu, sem jafngildir 14,53% af heildarhlutafé félagsins.
Um 6.500 áskriftir að andvirði 58 milljarða króna bárust félaginu, sem samsvarar rétt tæplega fjórfaldri eftirspurn. Rúmlega fimmföld eftirspurn var eftir þeim hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók A og rúmlega þreföld eftirspurn var í áskriftarbók B.
Heildarfjöldi seldra hluta í útboðinu nam alls 118.923.851 og heildarsöluandvirði þeirra tæplega 18 milljörðum króna. Seldir voru 39.667.919 eigin hlutir. Útistandandi hlutir Ísfélags í kjölfar útboðs nema 818.612.313 hlutum.
Viðskipti með bréf félagsins hófust í morgun en veltan fór yfir milljarð um tíuleytið.
Lífeyrissjóðir meðal stærstu hluthafa
ÍV fjárfestingafélag ehf., sem er í Fram ehf., sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu er stærsti hluthafi Ísfélagsins með 49,1%.
Í skráningarlýsingu Ísfélagsins kom fram að Guðbjörg ætti rúmlega 11 prósenta hlut í Fram ehf. en synir hennar fjórir rúmlega 22% hlut hver.
Marteinn Harladsson ehf., sem er meðal annars í eigu Ólafs H. Marteinssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Ísfélagsins, er næst stærsti hluthafinn.
Lífeyrissjóður Verzlunarmanna, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Stapi lífeyrissjóður og Almenni lífeyrissjóðurinn bætast allir við á lista yfir tuttugu stærstu.
LIVE keypti mest allra lífeyrissjóða og fer með 2,8% eignarhlut í félaginu og er þá fimmti stærsti hluthafi félagsins.
Anna ehf., sem er í eigu Guðrúnar Rannveigar Jóhannsdóttur og Þórarins Sigurðarsonar, er sjötti stærsti hluthafi félagsins.