Eyríkið Túvalú tók nýlega á móti sínum fyrsta hraðbanka við höfuðstöðvar National Bank og Tuvalu í þorpinu Vaiaku á Funafuti, aðaleyju landsins. Á vef Guardian segir að fram til þessa hafi öll bankastarfsemi á eyjunni farið fram með reiðufé.

Túvalú er ein afskekktasta þjóð í heimi en eyjan er staðsett í Pólýnesíu í Kyrrahafi, um miðja vegu milli Ástralíu og Hawaii.

Hraðbankinn er sagður marka sögulega breytingu fyrir hið 12 þúsund manna eyríki, sem hefur aldrei áður haft aðgang að rafrænum bankaviðskiptum. Íbúar Túvalú hafa því neyðst til að standa í biðröðum þegar þeir fá útborgað við banka, sem er aðeins opinn til kl. 14.

„Dagurinn í dag markar ekki aðeins söguleg tímamót heldur nýja framtíð fyrir bankann, þjónustuna sem hann mun bjóða upp á og stefnumótun,“ sagði Feleti Teo, forsætisráðherra Túvalú.

Til að byrja með verður aðeins hægt að nota fyrirframgreidd kort í hraðbankanum en bankinn mun á næstunni innleiða notkun debetkorta, sem verða gefin út á eyjunni. Markmiðið er svo að bjóða upp á Visa-kort sem íbúar geta notað erlendis og í netverslun.