Íslenska málmleitarfélagið Amaroq tilkynkti í morgun niðurstöður úr tilraunaborunum og sýnatökum í Eagle’s Nest, sem er innan Anoritooq-rannsóknarleyfisins í Nanortalik-gullbeltinu, í um 30 kílómetra fjarlægð frá Nalunaq-gullnámunni.
Samkvæmt kauphallartilkynningu staðfesta niðurstöðurnar sviptingu tveggja gullberandi kvarsæða en rannsóknirnar eru hluti af áætlun Amaroq um að þróa eignir í námunda við Nalunaq til að nýta innviði og styðja við vinnslustöð svæðisins.
„Þessar ánægjulegu niðurstöður úr Eagle’s Nest renna stoðum undir aðferðafræði okkar við rannsóknir á Nanortalik-gullbeltinu. Uppgötvun á tveimur gullæðum með háum styrkleika gulls, ásamt jarðfræðilegum líkindum við Nalunaq-námuna, gerir Eagle’s Nest að mikilvægu verkefni í eignasafni okkar. Við munum nú nýta þessar niðurstöður til að skilgreina enn betur aðferðafræði okkar við að þróa frekari auðlindir til að byggja undir starfsemi okkar í Suður-Grænlandi,” segir James Gilbertson, yfirmaður rannsókna hjá Amaroq.
Samkvæmt málmleitarfélaginu sýndu sýnatökur styrkleika gulls upp í allt að 54,5 grömm á tonn í kvarsæðum.
„Tvær kvarsæðar voru greindar með samtals þykkt á bilinu 10-15 metra og halla undan um 105 metra. Talið er að sýnatökur fyrri ára, sem gáfu fjölda sýna með yfir 10 g/t af gulli, megi rekja til þessara æða,” segir í tilkynningu félagsins.
Samkvæmt Amaroq sýna fyrstu niðurstöður efnagreiningar að um svipaðar bergmyndanir er að ræða í og í Nalunaq-námunni en Eagle’s Nest er eitt af níu rannsóknarverkefnum sem Amaroq hefur kortlagt innan Nanortalik-gullbeltisins, í grennd við Nalunaq.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær er hlutabréfaverð félagsins í hæstu hæðum um þessar mundir eftir að gullframleiðsla hófst í Nalunaq-námunni.
Um miðjan nóvembermánuð greindi Amaroq frá því að félagið hefði gert sölusamning við Auramet International en í samningnum skuldbindur Auramet sig til að kaupa allt gull sem félagið framleiðir í Nalunaq-gullnámunni í Suður-Grænlandi.
Samhliða því var tilkynnt að Amaroq hefði náð samningum við Metalor Technologies SA, um að fullvinna gullstangir félagsins en Metalor sérhæfir sig í mati og vinnslu góðmálma í vinnslustöð sinni sem staðsett er í Zurich, Sviss.
Tæplega tveimur vikum síðar steypti félagið sinn fyrsta gullmola en Amaroq framleiddi um 1,2 kílógramm af gulli (39 troy-únsur) úr Nalunaq-námunni.
Félagið stefnir á að auka framleiðslu upp í stöðug, full afköst á 4. ársfjórðungi 2025, þar sem unnin verða 260-300 tonn á dag af efni með áætluðum 12-16 g/t af gullstyrkleika.