Christopher Waller, sem situr í bankastjórn seðlabanka Bandaríkjanna, sagði í gær að hagtölur bendi til þess að seðlabankinn ætti að stíga varlega til jarðar í næstu vaxtaákvörðun.
Seðlabanki Bandaríkjanna byrjaði vaxtalækkunarferlið á 50 punkta lækkun í síðasta mánuði en bankastjórn bankans kemur saman í byrjun nóvember.
Að mati Waller benda öll gögn til þess að hægja þurfi á vaxtalækkunarferlinu sem samkvæmt The Wall Street Journal má túlka sem 25 punkta lækkun.
Waller, sem var meðal ræðumanna á viðburði Hoover Institution í Stanford í gær, sagði þó að tvær sviðsmyndir gætu breytt stöðunni.
Fyrri sviðsmyndin væri sú að ef verðbólga hjaðnar meira en spár gera ráð fyrir og fer undir 2% eða vinnumarkaðurinn verður fyrir skelli þá er líklegt að bankinn flýti vaxtalækkunarferlinu strax í nóvember.
Seinni sviðsmyndin er sú að ef það myndist óvæntur verðbólguþrýstingur á markaði, meðal annars vegna aukinnar eftirspurnar á neytendamarkaði eða skorti á framboði, gæti það þýtt að bankinn muni halda vöxtum óbreyttum í byrjun nóvember.
Waller lauk ræðu sinni með því að segja að hann teldi mjög líklegt að fellibylirnir í Flórída sem og verkföll hjá Boeing myndu líklegast hafa neikvæð áhrif á vinnumarkaðstölur októbermánaðar sem von er á 1. nóvember. „
Því miður mun það reynast erfitt að lesa í vinnumarkaðstölur októbermánaðar,“ sagði Waller.