Christop­her Waller, sem situr í banka­stjórn seðla­banka Banda­ríkjanna, sagði í gær að hag­tölur bendi til þess að seðla­bankinn ætti að stíga var­lega til jarðar í næstu vaxta­á­kvörðun.

Seðla­banki Banda­ríkjanna byrjaði vaxta­lækkunar­ferlið á 50 punkta lækkun í síðasta mánuði en banka­stjórn bankans kemur saman í byrjun nóvember.

Að mati Waller benda öll gögn til þess að hægja þurfi á vaxta­lækkunar­ferlinu sem sam­kvæmt The Wall Street Journal má túlka sem 25 punkta lækkun.

Waller, sem var meðal ræðu­manna á við­burði Hoover Insti­tution í Stan­ford í gær, sagði þó að tvær sviðs­myndir gætu breytt stöðunni.

Fyrri sviðs­myndin væri sú að ef verð­bólga hjaðnar meira en spár gera ráð fyrir og fer undir 2% eða vinnu­markaðurinn verður fyrir skelli þá er lík­legt að bankinn flýti vaxta­lækkunar­ferlinu strax í nóvember.

Seinni sviðs­myndin er sú að ef það myndist ó­væntur verð­bólgu­þrýstingur á markaði, meðal annars vegna aukinnar eftir­spurnar á neytendamarkaði eða skorti á fram­boði, gæti það þýtt að bankinn muni halda vöxtum ó­breyttum í byrjun nóvember.

Waller lauk ræðu sinni með því að segja að hann teldi mjög lík­legt að felli­bylirnir í Flórída sem og verk­föll hjá Boeing myndu lík­legast hafa nei­kvæð á­hrif á vinnu­markaðs­tölur októ­ber­mánaðar sem von er á 1. nóvember. „

Því miður mun það reynast erfitt að lesa í vinnu­markaðs­tölur októ­ber­mánaðar,“ sagði Waller.