Meirihluti þingmanna Framsóknar, þar á meðal allir ráðherrar flokksins, eru andvígir því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu samkvæmt niðurstöðum könnunar Viðskiptablaðsins meðal allra þingmanna.
Tveir þingmenn Framsóknar segjast hins telja þörf á að koma upp skýrum lagaramma og reglum um starfsemi innlendra vefverslana með áfengi.
Viðskiptablaðið sendi eftirfarandi fyrirspurn á alla þingmenn: „Ert þú sem þingmaður almennt hlynntur eða andvígur því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu?“ Jafnframt var spurt um afstöðu til núverandi fyrirkomulags áfengissölu með einkaleyfi ÁTVR.
„Engin leið að koma í veg fyrir þessa tegund smásölu á áfengi“
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir hefur verið sá þingmaður Framsóknar sem hefur hvað mest tjáðs sig um áfengislöggjöfina og málefni ÁTVR. Árið 2022 lagði hún fram frumvarp um afnám opnunarbanns ÁTVR á frídögum.
Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segist Hafdís ekki geta verið sammála því að leyfa erlendum aðilum að selja áfengi í gegnum netsölu á Íslandi en banna innlendum.
„Miðað við markaðsforsendur á smásölu á áfengi eins og þær eru í dag og hafa skapast undanfarin ár þá er engin leið að koma í veg fyrir þessa tegund smásölu á áfengi.
Mín skoðun er sú að það þurfi að setja lagaramma og reglur utan um þessa smásölu áfengis, því eins og staðan er í dag þá er þetta eins og villta vestrið, rekstraraðilar að nýta sér EES reglur og holur í lagarammanum. Það ábyrgasta í þeirri stöðu sem blasir við okkur í dag er að koma á skynsömum og skýrum lögum og reglum utan þessa tegund á sölu áfengis.“
Hafdís segir að þörf sé á samtali um það hvort rekstrarforsendur ÁTVR standi undir sér og hvort hlutverk ÁTVR sé enn það sama og í upphafi „sem var að stýra aðgengi, ekki söluhvetjandi söluaðferðir innan ÁTVR“. Tryggja þurfi að forvarnarsjónarmið séu enn í hávegum höfð.
Stefán: Ekki hægt að hafa íslenska aðila undir strangari kröfum
Stefán Vagn Stefánsson sagði í samtali við Viðskiptablaðið að hann hafi verið hlynntur núverandi fyrirkomulagi áfengissölu með sérleyfi ÁTVR og telur að löggjafinn þurfi að fara varlega ef breyta á áfengislöggjöfinni.
Hann tekur þó undir að það sé vandamál að innlendir rekstraraðilar standi ekki jöfnum fæti og erlendir aðilar þegar kemur að vefverslunum með áfengi.
„Í grunninn er ég sáttur með fyrirkomulagið en ég geri mér hins vegar grein fyrir því að við komumst ekki áfram öðruvísi en að gera breytingar á regluverki. Það er ekki hægt að hafa íslensku aðilana einhvern veginn undir strangari kröfum en þá erlendu,“ segir Stefán Vagn.
„Þótt ég sé kannski ekkert sérstaklega spenntur fyrir því þá held ég að umhverfið í dag muni kalla á lagabreytingu til framtíðar hvað þetta varðar.“
Viðskiptablaðið fékk svör frá átta öðrum þingmönnum Framsóknar, þar á meðal öllum ráðherrum flokksins, sem segjast andvígir því að heimila smásölu einkaaðila á netinu. Flestir þeirra segjast ánægðir með núverandi fyrirkomulag með einkaleyfi ÁTVR.
Furðar sig á að vínbirgir sé kominn í beina samkeppni við ÁTVR
Halla Signý Kristjánsdóttir er andvíg því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu út frá lýðheilsusjónarmið. Sala ÁTVR sé einmitt varin lögum út frá sjónarmiðum um lýðheilsu.
„Þetta snýst ekki um frelsi til viðskipta, þetta er sérstök vara og verðum að umgangast hana sem slíka. Viðskiptalega er sú staða sem er núna uppi mjög sérstök. Nefni ég bara eitt dæmi, Hagar er birgi ÁTVR og nú eru þeir komnir í samkeppni við ÁTVR í smásölu.“
Halla Signý segir íslenska forvarnarmótelið vera virt og að horft sé til þess víða. Meðal annars séu sveitarfélög í Danmörku að horfa til Íslands til að ná niður drykkju meðal ungmenna og vilji takmarka aðgengi þeirra að áfengi.
Það hvort fyrirkomulagið sé fullkomið er svo annað mál að hennar mati. Það megi alveg örugglega bæta það „en ég hef þó ekki á hraðbergi eitthvað um það“.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og fjármálaráðherra, hefur tekið harða afstöðu gegn rekstri vefverslana einkaaðila með áfengi og sagði við mbl.is í sumar að honum þætti óþolandi að „frekir aðilar á markaði“ hafi nýtt sér óljóst regluverk til að ryðja sér inn á áfengismarkaðinn.
Í júní sendi hann lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu erindi vegna starfsemi netverslana með áfengi. Lögreglan lauk rannsókn sinni í síðasta mánuði og vísaði málinu til ákærusviðs.
Fjallað er ítarlega um könnunina í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina og svör einstakra þingmanna hér.