Páll Harðarson lauk störfum hjá Nasdaq á síðastliðnu ári eftir rúmlega tveggja áratuga starf í lykilhlutverkum innan Kauphallar Íslands og Nasdaq.

Páll, sem tekinn er tali í Viðskiptablaði vikunnar, segir fjölda tvískráninga á íslenska markaðnum ánægjulegan.

„Ég lít á tvískráningar sem ákveðinn gæðastimpil fyrir markaðinn,“ segir hann og bendir á að sjö fyrirtæki séu í dag tvískráð á íslenska hlutabréfamarkaðnum.

Það eru Alvotech, Amaroq Minerals, Oculis, Kaldvik, Icelandic Salmon, móðurfélag Arnarlax, JBT Marel og Arion banki.

„Við höfum séð fyrirtæki eins og Arion banka tvískrá sig á sama tíma, og svo höfum við dæmi eins og Marel, fyrirtæki sem leita á erlenda markaði en halda áfram að bjóða hlutabréf sín hér heima.“

„Jafnframt höfum við fyrirtæki sem byrja á að skrá sig á hlutabréfamarkað erlendis en koma síðar inn á íslenskan hlutabréfamarkað.

Það er ánægjulegt að sjá glæsileg fyrirtæki, sem hafa staðið sig vel erlendis, leggja sitt af mörkum á íslenska markaðnum. Þetta finnst mér vera til vitnis um virði þess að vera með íslenskan hlutabréfamarkað, jafnvel þó að fyrirtækin eigi erindi á erlenda markaði,“ bætir Páll við.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.