Tekjur flugfélagsins Play námu 282 milljónum Bandaríkjadala í fyrra og tvöfölduðust þannig á milli ára en þær voru um 140 milljónir dala árið 2022.
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) batnaði einnig umtalsvert á milli ára en rekstrartap ársins 2022 nam 21 milljón bandaríkjadala eða um 2,9 milljarðar króna en félagið tapaði 6 milljörðum árið 2022.
Flugfélagið tapaði í heild 35,2 milljónum Bandaríkjadala á árinu sem samsvarar 4,8 milljörðum króna á gengi dagsins.
Tekist vel til að auka tekjurnar
Í viðtali við Viðskiptablaðið í október, sagði Birgir Jónsson forstjóri Play að félagið ætlaði að einblína á að draga úr örum vexti og „herða skrúfurnar og hámarka tekjurnar.“
Árið 2024 verður fyrsta árið í rekstri PLAY þar sem ekki verður bætt við nýjum flugvélum.
Félaginu hefur tekist vel til að auka tekjurnar en hliðartekjur félagsins á hvern farþega jukust um 55% á fjórða ársfjórðungi. samanborið við fjórða ársfjórðung 2022.
Hliðartekjur Play af hverjum farþega námu 54 Bandaríkjadölum á fjórðungnum sem var hækkun úr 42 dölum árið áður.
Heildartekjur á fjórða ársfjórðungi voru 65,7 milljónir bandaríkjadollara, samanborið við 37,9 milljónir bandaríkjadollara á fjórða ársfjórðungi 2022.
„Árið 2023 var að mörgu leyti gott ár fyrir flugfélagið PLAY og við sýndum enn á ný fram á seigluna og sveigjanleikann sem býr í viðskiptamódeli félagsins sem og starfsfólki þess. Við skiluðum góðri fjárhagsniðurstöðu eftir sumarvertíðina og vorum í fyrsta sinn með hreinan hagnað á þriðja ársfjórðungi, þrátt fyrir að hafa verið í miklum uppbyggingarfasa þar sem við bættum við okkur hundruð starfsmanna, þrettán nýjum áfangastöðum og fjórum nýjum farþegaþotum,” segir Birgir Jónsson forstjóri Play.
Play hefur verið í örum vexti en framboð sætiskílómetra (ASK) jókst um 89% á milli ára. Floti Play taldi tíu farþegaþotur í lok árs 2023, samanborið við sex þotur í lok árs 2022.
Handbært fé við árslok 2023 var 21,6 milljónir bandaríkjadollara að meðtöldum 9 milljónum bandaríkjadollara í bundnum innistæðum.
„Við lok sumarvertíðarinnar leit út fyrir að við myndum ljúka árinu með ásættanlegri fjárhagsniðurstöðu, en eins og stundum vill verða í flugbransanum, þá höfðu ytri áhrifaþættir neikvæð áhrif á reksturinn, og við árslok var niðurstaðan sumpart lakari en búist hafði verið við. Þessar áskoranir gerðu vart við sig síðsumars með landfræðipólitískum og jarðfræðilegum breytum á borð við mikla hækkun olíuverðs, kostnaðarauka vegna verðbólgu og átök í Miðausturlöndum. Á fjórða ársfjórðungi gerðu jarðhræringar á Reykjanesskaga vart við sig og þeim fylgdi ónákvæmur fréttaflutningur á heimsvísu sem hafði neikvæð áhrif á eftirspurn til skamms tíma eftir Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn. Reksturinn varð einnig fyrir röskun þegar Félag íslenskra flugumferðarstjóra boðaði til verkfalla þar sem flugumferðarstjórar lögðu niður störf í nokkrum verkfallshrinum á aðventunni. Það var því sérstaklega gott að sjá nokkrar af bestu söluvikum félagsins nú í upphafi árs. Bókunarstaðan er sterk fyrir árið og við sjáum hærri einingatekjur samanborið við árið í fyrra, sem gefur okkur ástæðu til að vera bjartsýn fyrir sumarið og árið í heild,” segir Birgir.
Að sögn Birgis er sala hafinn á fjórða sumrinu hjá Play og sér félagið skýr merki um að viðskiptamódelið sé að virka sem skyldi.
„Þegar litið er fram á við sjáum við skýr og spennandi tækifæri til frekari vaxtar. Við erum einnig með til skoðunar að þróa flota okkar frekar, því það skiptir máli að vanda vel til verka við val á réttum farþegaþotum og samsetningu flotans til að þjóna sem best okkar áfangastöðum sem hafa mismunandi þarfir eftir árstíðum og árferði,” segir hann enn fremur í uppgjörinu.
Hann er stoltur af árangri félagsins á árinu en viðurkennir að hann hefði viljað sjá minna umrót á síðustu mánuðum ársins og betri fjárhagsniðurstöðu.
„Ég er hins vegar handviss um að við erum á réttri leið og hlakka til að fylgjast áfram með samstarfsfólki mínu byggja upp frábært flugfélag á komandi ári.“