Velta unaðstækjaverslunarinnar Blush nærri tvöfaldaðist á síðasta ári samanborið við árið 2019. Að sögn Gerðar Huldar Arinbjarnardóttur, stofnanda og eiganda verslunarinnar, hefur árið í ár farið af stað með sambærilegum hætti. Frekari vaxtartækifæri séu til staðar en á næstunni er fyrirhugað að félagið komi á markað með sína eigin vörulínu.
Samkvæmt ársreikningi félagsins námu tekjur rúmlega 413 milljón krónum og jukust um tæpar 193 milljónir frá fyrra ári. EBITDA félagsins nam 87 milljónum, sem er 37 milljóna aukning frá 2019, og endanleg afkoma var 65 milljón króna hagnaður. Fimmtán starfsmenn voru hjá félaginu í fyrra og námu eignir þess 197 milljónum í ársbyrjun, sem skiptist nánast í þriðjunga niður á fastafjármuni, birgðir og handbært fé. Eiginfjárhlutfall félagsins lækkar nokkuð milli ára þótt eigið fé standi í stað, nemur nú 51,7% í stað 80,8%, þar sem eignir jukust um 48 milljónir. Engar langtímaskuldir eru í félaginu.
„Ég hélt við hefðum toppað árið 2019 og í raun hélt ég að við gætum ekki orðið stærri en árið 2016 þegar veltan var 132 milljónir. En við höfum margfaldast síðan þá og framtíðin er ofboðslega björt. Árið í ár hefur farið gífurlega vel af stað og við sjáum fram á sambærilegan vöxt í ár,“ segir Gerður.
Að sögn Gerðar má rekja velgengninna til ýmissa samverkandi þátta. Fyrir það fyrsta þá færði verslunin sig um set, úr Hamraborginni og yfir í stærra húsnæði á Dalvegi, og merktu þau aukningu í komu viðskiptavina við það, það er að segja þegar samkomuhömlum létti. Í annan stað hafi Blush áunnið sér vissan sess sem vörumerki á þessum markaði og sé orðið vel þekkt. Þá hafi faraldurinn eflaust haft áhrif líka enda ekki ólíklegt að fólk hafi viljað gera sér dagamun í svefnherberginu meðan það ferðaðist innanhúss. Þar hafi Blush reynt að stíga inn og gleðja fólk eilítið.
Enn pláss á markaðnum
„Það var og er gífurlega mikið að gera í netversluninni hjá okkur og hjá okkur eru þrír starfsmenn sem sinna engu öðru en lagernum og netversluninni. Þótt margir versli gegnum netið þá er mikill fjöldi sem mætir á staðinn. Það að koma í verslunina er ákveðin upplifun, umhverfið er notalegt og viðskiptavinurinn getur fengið ráðgjöf frá starfsfólki um hví eitt tæki kynni að henta honum betur umfram annað,“ segir Gerður.
Merkjanlegur munur er síðan á því hvað selst betur í netversluninni samanborið við verslunina sjálfa. Grófari leikföng og runkmúffur seljist til að mynda frekar gegnum vefinn á meðan klassískari tæki, á borð við egg, titrara og gervilimi, eru meira keyptir á staðnum.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:
- Nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar tekur brátt gildi og þar með getur þúsund íbúða uppbygging við Kringluna hafist.
- Rætt er við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra um stýrivaxtahækkunina.
- Stærstu bílaleigum landsins leist ekki á blikuna síðasta vor en tókst að komast lifandi gegnum skelfilegt farsóttarár.
- Fjallað um nýlega rannsókn þar sem stjórnarkonur skráðra félaga lýsa upplifun sinni af ráðningarferlum forstjóra.
- Farið er yfir umtalsverða hækkun hlutabréfaverðs Eimskips og rætt við forstjóra félagsins um lykilinn að árangrinum.
- Rætt er við Signýju Sif Sigurðardóttur, nýráðinn framkvæmdastjóra fjármögnunar hjá Eyri Invest.
- Festi mun fyrst allra íslenskra félaga skrá kolefnisbindingu í Loftslagsskrá Íslands.
- Óðinn óráðsíu í ríkisrekstri og launaþróun opinberra starfsmanna.
- Þá eru hrafnarnir og Týr að sjálfsögðu á sínum stað sem og fjölmiðlapistill.