Ákvörðun ríkis­stjórnarinnar að tvöfalda veiðigjöld mun valda því að verðmæti sjávarút­vegs­félaganna þriggja í Kaup­höll Ís­lands, sem eru að tals­verðum hluta í eigu líf­eyris­sjóða, rýrni um 53 milljarða króna.

Þetta kemur fram í nýrri greiningu Jakobs­son Capi­tal, sem fjallar um áhrif hækkunar veiði­gjalda á verðmæti og arð­semi sjávarút­vegs­félaganna þriggja í Kaup­höllinni, en Inn­herji greinir frá.

Í greiningunni er varað við því að komi jafn­framt til ytri áfalla, eins og meðal annars loðnu­brests eða við­skipta­stríðs, sé hætta á að sjávarút­vegur verði „ekki lengur einn af máttar­stólpunum í ís­lensku at­vinnulífi.“

Hanna Katrín Friðriks­dóttir at­vinnu­vegaráðherra og Daði Már Kristó­fers­son fjár­málaráðherra ákváðu nýverið að fara aðrar leiðir til að reikna út skráð afla­verðmæti fyrir bæði botn­fisk og upp­sjávar­fisk.

Þau vonast til þess að sækja um tíu milljarða auka­lega í skatta með breytingunum en áformin hafa verið harð­lega gagn­rýnd af bæjarfélögum á lands­byggðinni og sjávarút­vegs­fyrir­tækjum.

Í greiningu Jakobs­son Capi­tal kemur fram að sé litið á út­flutt magn þorsks, ufsa og ýsu á árinu 2023 þá hafi það numið 163 þúsund tonnum frá Ís­landi borið saman við 336 þúsund tonn í til­felli Noregs. Út­flutnings­verðmætin hjá Ís­landi voru hins vegar mun meiri miðað við hvert kíló, eða 7,67 evrur á móti 4,74 evrum hjá Noregi.

Þá segir einnig að alveg frá árinu 2007 hafi út­flutnings­verðmæti af þessum fisk­tegundum aukist ár­lega um 5,7 pró­sent í evrum talið hjá Ís­lendingum, en á sama tíma hefur vöxturinn verið aðeins nærri 2,9 pró­sent hjá Norðmönnum.

„Hver ástæðan er fyrir meiri verðmæta­sköpun í ís­lenskum sjávarút­vegi er erfitt að svara. Helsta skýringin á meiri aukningu í út­flutnings­verðmætum frá Ís­landi en Noregi liggur lík­lega í að fiskur er að miklu leyti fluttur út óunninn frá Noregi. Á meðan fiskurinn kemur oftast full­unninn frá Ís­landi og allt nýtt. Hér má nefna fiskiroð sem dæmi. Ein ástæða þess að fiskur er síður unninn í Noregi er að fram­boð er óstöðugt og kemur í miklum sveiflum. Veiði er meira sam­felld á Ís­landi. Stöðugra fram­boð frá Ís­landi en Noregi helgast meðal annars af mis­munandi fisk­veiði­stjórnun,“ segir í greiningu Jakobs­son.

Þá er tekið fram í greiningunni að sveiflur í arð­semi sjávarút­vegs­fyrir­tækja séu mun meiri en hjá öðrum at­vinnu­greinum í Kaup­höllinni.

„Sveiflur í arð­semi sjávarút­vegs­fyrir­tækja eru mun meiri en í flestum öðrum at­vinnu­greinum sem eru í Kaup­höllinni. Í smásölu hefur meðalarð­semi Haga og Festar verið 14,1 pró­sent. Litlar sveiflur hafa verið í arð­semi enda stöðugur rekstur. Lægst hefur arð­semin farið í 9 pró­sent og hæst í 18 pró­sent á þessu sama tíma­bili. Sama á við um bankana ef horft er á arð­semi af áfram­haldandi rekstri. Arð­semis­mark­mið bankanna liggja milli 10 og 13 pró­sent.“

Í árs­lok 2024 nam arð­semi bundins fjár­magns að meðaltali aðeins rúm­lega 5%, sem er undir vegnum fjár­magns­kostnaði fyrir­tækjanna. Jakobs­son Capi­tal metur fjár­magns­kostnað Brims 8,54%, Síldar­vinnslunnar 8,92% og Ís­félagsins 9,17%. Slík niður­staða þýðir að fjár­munir í eignum skila ekki ásættan­legri ávöxtun – og í raun hefði „verið betra að leggja féð í banka­bók,“ eins og segir í greiningunni.

Ef arð­semi lækkar enn frekar með nýjum veiðigjöldum og ef til ytri áfalla kemur á borð við lé­lega nýliðun loðnu­stofns eða versnandi við­skipta­kjör bendir greiningin til þess að sjávarút­vegurinn gæti hætt að vera einn af burðarásum ís­lensks at­vinnulífs.

Í slíkri sviðs­mynd lækkar arð­semi bundins fjár­magns niður í 5–6%, sem er undir ávöxtunar­kröfu ís­lenskra ríkis­skulda­bréfa. Þá skapar fjár­festing í sjávarút­vegi ekki lengur ásættan­legt vægi í eignasöfnum fjár­festa, hvorki innan­lands né er­lendis.


Veiði­gjalda­hækkunin kemur mis­jafn­lega niður á félögunum. Ís­félagið, sem byggir af­komu sína að mestu á upp­sjávar­tegundum, stendur frammi fyrir hlut­falls­lega mestu hækkuninni, sam­kvæmt Jakobs­son Capi­tal.

Brim fylgir fast á hæla, en áhrifin virðast minnst hjá Síldar­vinnslunni. Samt sem áður hefur öll greinin þegar fundið fyrir þrýstingi: rekstrar­hagnaður félaganna lækkaði um tæp­lega 40% milli ára, úr 237 milljónum dala árið 2023 í 146 milljónir dala árið 2024.

Grein­endur benda á að rekstrar­hag­ræðing sé helsta vopnið til að mæta breyttum aðstæðum – hvort sem það felst í sölu eigna, sam­drætti starfs­stöðva eða sam­einingu flotans.

Með lægri arð­semi og auknum kostnaði, m.a. vegna kol­efnis­gjalda, launa­hækkana og nú veiði­gjalda, telur Jakobs­son Capi­tal lík­legt að ávöxtun bundins fjár­magns muni lækka niður fyrir 8% hjá bæði Brim og Ís­félaginu.

Þótt slík ávöxtun kunni að teljast ásættan­leg í áhættu­litlum rekstri er hún varla nægjan­leg í eins sveiflu­kenndri at­vinnu­grein og sjávarút­vegur er.

Ef veiðigjöld verða hækkuð sam­hliða annarri kostnaðar­aukningu má búast við frekari sam­drætti í fjár­festingu í greininni. Það hefur áhrif á vöxt, sam­keppnis­hæfni og at­vinnu­sköpun til framtíðar.

Í saman­burði við aðrar at­vinnu­greinar hefur sjávarút­vegurinn skilað fremur hóf­legri ávöxtun undan­farið ára­tug, að mati Jakobs­son Capi­tal, lakari en í smásölu og fram­leiðslu, en þó betri en í fjar­skiptum.

Hins vegar bendir greiningin á að gæði af­urðanna og virðis­aukinn í ís­lenskri fisk­vinnslu séu hærri en víða annars staðar. Ástæða þess er meðal annars stöðug veiði, þróuð vinnsla og nýting allra hluta hráefnisins, svo sem fiskiroðs.