Ákvörðun ríkisstjórnarinnar að tvöfalda veiðigjöld mun valda því að verðmæti sjávarútvegsfélaganna þriggja í Kauphöll Íslands, sem eru að talsverðum hluta í eigu lífeyrissjóða, rýrni um 53 milljarða króna.
Þetta kemur fram í nýrri greiningu Jakobsson Capital, sem fjallar um áhrif hækkunar veiðigjalda á verðmæti og arðsemi sjávarútvegsfélaganna þriggja í Kauphöllinni, en Innherji greinir frá.
Í greiningunni er varað við því að komi jafnframt til ytri áfalla, eins og meðal annars loðnubrests eða viðskiptastríðs, sé hætta á að sjávarútvegur verði „ekki lengur einn af máttarstólpunum í íslensku atvinnulífi.“
Hanna Katrín Friðriksdóttir atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra ákváðu nýverið að fara aðrar leiðir til að reikna út skráð aflaverðmæti fyrir bæði botnfisk og uppsjávarfisk.
Þau vonast til þess að sækja um tíu milljarða aukalega í skatta með breytingunum en áformin hafa verið harðlega gagnrýnd af bæjarfélögum á landsbyggðinni og sjávarútvegsfyrirtækjum.
Í greiningu Jakobsson Capital kemur fram að sé litið á útflutt magn þorsks, ufsa og ýsu á árinu 2023 þá hafi það numið 163 þúsund tonnum frá Íslandi borið saman við 336 þúsund tonn í tilfelli Noregs. Útflutningsverðmætin hjá Íslandi voru hins vegar mun meiri miðað við hvert kíló, eða 7,67 evrur á móti 4,74 evrum hjá Noregi.
Þá segir einnig að alveg frá árinu 2007 hafi útflutningsverðmæti af þessum fisktegundum aukist árlega um 5,7 prósent í evrum talið hjá Íslendingum, en á sama tíma hefur vöxturinn verið aðeins nærri 2,9 prósent hjá Norðmönnum.
„Hver ástæðan er fyrir meiri verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi er erfitt að svara. Helsta skýringin á meiri aukningu í útflutningsverðmætum frá Íslandi en Noregi liggur líklega í að fiskur er að miklu leyti fluttur út óunninn frá Noregi. Á meðan fiskurinn kemur oftast fullunninn frá Íslandi og allt nýtt. Hér má nefna fiskiroð sem dæmi. Ein ástæða þess að fiskur er síður unninn í Noregi er að framboð er óstöðugt og kemur í miklum sveiflum. Veiði er meira samfelld á Íslandi. Stöðugra framboð frá Íslandi en Noregi helgast meðal annars af mismunandi fiskveiðistjórnun,“ segir í greiningu Jakobsson.
Þá er tekið fram í greiningunni að sveiflur í arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja séu mun meiri en hjá öðrum atvinnugreinum í Kauphöllinni.
„Sveiflur í arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja eru mun meiri en í flestum öðrum atvinnugreinum sem eru í Kauphöllinni. Í smásölu hefur meðalarðsemi Haga og Festar verið 14,1 prósent. Litlar sveiflur hafa verið í arðsemi enda stöðugur rekstur. Lægst hefur arðsemin farið í 9 prósent og hæst í 18 prósent á þessu sama tímabili. Sama á við um bankana ef horft er á arðsemi af áframhaldandi rekstri. Arðsemismarkmið bankanna liggja milli 10 og 13 prósent.“
Í árslok 2024 nam arðsemi bundins fjármagns að meðaltali aðeins rúmlega 5%, sem er undir vegnum fjármagnskostnaði fyrirtækjanna. Jakobsson Capital metur fjármagnskostnað Brims 8,54%, Síldarvinnslunnar 8,92% og Ísfélagsins 9,17%. Slík niðurstaða þýðir að fjármunir í eignum skila ekki ásættanlegri ávöxtun – og í raun hefði „verið betra að leggja féð í bankabók,“ eins og segir í greiningunni.
Ef arðsemi lækkar enn frekar með nýjum veiðigjöldum og ef til ytri áfalla kemur á borð við lélega nýliðun loðnustofns eða versnandi viðskiptakjör bendir greiningin til þess að sjávarútvegurinn gæti hætt að vera einn af burðarásum íslensks atvinnulífs.
Í slíkri sviðsmynd lækkar arðsemi bundins fjármagns niður í 5–6%, sem er undir ávöxtunarkröfu íslenskra ríkisskuldabréfa. Þá skapar fjárfesting í sjávarútvegi ekki lengur ásættanlegt vægi í eignasöfnum fjárfesta, hvorki innanlands né erlendis.
Veiðigjaldahækkunin kemur misjafnlega niður á félögunum. Ísfélagið, sem byggir afkomu sína að mestu á uppsjávartegundum, stendur frammi fyrir hlutfallslega mestu hækkuninni, samkvæmt Jakobsson Capital.
Brim fylgir fast á hæla, en áhrifin virðast minnst hjá Síldarvinnslunni. Samt sem áður hefur öll greinin þegar fundið fyrir þrýstingi: rekstrarhagnaður félaganna lækkaði um tæplega 40% milli ára, úr 237 milljónum dala árið 2023 í 146 milljónir dala árið 2024.
Greinendur benda á að rekstrarhagræðing sé helsta vopnið til að mæta breyttum aðstæðum – hvort sem það felst í sölu eigna, samdrætti starfsstöðva eða sameiningu flotans.
Með lægri arðsemi og auknum kostnaði, m.a. vegna kolefnisgjalda, launahækkana og nú veiðigjalda, telur Jakobsson Capital líklegt að ávöxtun bundins fjármagns muni lækka niður fyrir 8% hjá bæði Brim og Ísfélaginu.
Þótt slík ávöxtun kunni að teljast ásættanleg í áhættulitlum rekstri er hún varla nægjanleg í eins sveiflukenndri atvinnugrein og sjávarútvegur er.
Ef veiðigjöld verða hækkuð samhliða annarri kostnaðaraukningu má búast við frekari samdrætti í fjárfestingu í greininni. Það hefur áhrif á vöxt, samkeppnishæfni og atvinnusköpun til framtíðar.
Í samanburði við aðrar atvinnugreinar hefur sjávarútvegurinn skilað fremur hóflegri ávöxtun undanfarið áratug, að mati Jakobsson Capital, lakari en í smásölu og framleiðslu, en þó betri en í fjarskiptum.
Hins vegar bendir greiningin á að gæði afurðanna og virðisaukinn í íslenskri fiskvinnslu séu hærri en víða annars staðar. Ástæða þess er meðal annars stöðug veiði, þróuð vinnsla og nýting allra hluta hráefnisins, svo sem fiskiroðs.