Bandaríski matvælaframleiðandinn Hostess Brands, sem framleiðir meðal annars hinar sígildu Twinkies-kökur, verður að öllum líkindum keyptur af sultuframleiðandanum J.M. Smucker.
Samningurinn gæti hljómað upp á 4 milljarða dala og samkvæmt þeim sem þekkja til málsins má jafnvel búast við formlegri tilkynningu síðar í dag.
Salan myndi marka jákvæð endalok fyrir Hostess en fyrirtækið hefur orðið gjaldþrota tvisvar sinnum. Tvö fjárfestingarfyrirtæki keyptu fyrirtækið úr þrotabúi fyrir áratug síðan sem náði að koma Hostess vörum aftur í hillur verslana eftir átta mánaða fjarveru.
Hostess snéri svo aftur á aðalmarkað í nóvember 2016 og er markaðsvirði fyrirtækisins nú 3,7 milljarðar dala. Sölur fyrirtækisins námu 1,3 milljörðum í fyrra, sem er 200 milljóna dala hækkun frá árinu þar á undan. Hlutabréf fyrirtækisins hafa einnig tvöfaldast undanfarin fimm ár.
Kaupandinn Smucker er einn þekktasti sultuframleiðandi Bandaríkjanna, en framleiðir einnig hnetusmjörið Jif, Folgers-kaffi og hundanammið Milk-Bone. Í lok júlí greindi fyrirtækið frá 21% aukinni sölu á öðrum ársfjórðungi en Smucker hefur einnig hækkað verð sín undanfarin misseri í samræmi við verðbólgu.